Viðskipti innlent

Hátt í tvö þúsund sagt upp í fjármálageiranum

Gissur Sigurðsson skrifar
Landsbankinn sagði 43 starfsmönnum upp í gær og með þeim uppsögnum hefur hátt í tvö þúsund manns verið sagt upp hjá fjármálastofnunum og þjónustufyrirtækjum frá árinu 2008.

Friðbert Traustason, sem leiðir samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja hefur fylgst með þessari framvindu undanfarin ár.

„Fækkunin byrjar strax í apríl 2008. Þá var hundrað manns sagt upp í Íslandsbanka og síðan ríður skelfingin yfir í október 2008 þegar um sjö hundruð manns var sagt upp. Síðan var um þrjú hundruð manns sagt upp í viðbót árið 2009,“ segir Friðbert.

Hvað eru margir starfsmenn í þessum fjármálafyrirtækjum og þjónustufyrirtækjum þeirra? Hvað voru þeir margir og hvað eru þeir margir núna?

„Í ársbyrjun 2008, þá voru tæplega sex þúsund starfandi hjá viðskiptabönkum, sparisjóðum og öllum þessum þjónustufyrirtækjum sem þeir eiga. Þeir eru núna tæplega fjögur þúsund. Þeim hefur fækkað um einn þriðja.“

Sjáið þið frekari fækkun í spilunum?



„Því miður finnst mér, eftir viðtöl við stjórnendur bankanna, að þessu sé ekki lokið og síðast í gær sá ég viðtal við bankastjóra þar sem hann talaði um að það þurfi frekari hagræðingu.“

Hvernig hefur þessu fólki gengið að fá aðra vinnu?



„Sem betur fer er þetta mjög vel þjálfað fólk og með alls kyns menntun að baki. Þannig að þeim hefur gengið tiltölulega vel á vinnumarkaðinum. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×