Viðskipti innlent

Háskólinn veiðir til landsins risaráðstefnu á sviði viðskiptafræði

Óli Kristján Ármannsson skrifar
EURAM er þekkingarsamfélag háskóla í 49 löndum sem stofnað var árið 2001 og miðar að því að efla rannsóknir og þekkingarsköpun í viðskiptafræði. Í ár verður ráðstefna EURAM haldin í París, en myndin er frá EURAM 2015 í Varsjá í Póllandi.
EURAM er þekkingarsamfélag háskóla í 49 löndum sem stofnað var árið 2001 og miðar að því að efla rannsóknir og þekkingarsköpun í viðskiptafræði. Í ár verður ráðstefna EURAM haldin í París, en myndin er frá EURAM 2015 í Varsjá í Póllandi. Mynd/EURAM
Áætlað er að tólf til fjórtán hundruð manns komi hingað til lands til að sækja alþjóðlega ráðstefnu sem viðskiptafræðideild Háskóla Íslands hefur fengið réttinn til að halda árið 2018. Um er að ræða ráðstefnu Eur­opean Academy of Management (EURAM), en hún er ein sú stærsta á sviði viðskiptafræði í Evrópu og stærsta ráðstefna sem haldin hefur verið á þessu sviði á Íslandi.

„Það er mjög mikilvægt fyrir íslenskt rannsóknarumhverfi í viðskiptafræði á Íslandi, Háskóla Íslands og viðskiptalífið almennt að fá EURAM til Íslands,“ segir Eyþór Ívar Jónsson, forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar um stjórnarhætti og lektor við Háskóla Íslands, en hann er jafnframt formaður undirbúningsnefndar EURAM 2018.

Eyþór Ívar Jónsson, forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar um stjórnarhætti og lektor við Háskóla Íslands
„Margir af helstu fræðimönnum Evrópu munu taka þátt í ráðstefnunni og við gerum okkur vonir um að vegna staðsetningar Íslands getum við fengið talsvert af virtum fræðimönnum frá Bandaríkjunum og víðar til þess að taka þátt.“

Umsóknarferlið vegna ráðstefnunnar segir Eyþór hafa verið langt, en það var unnið í samvinnu Háskólans, Meet in Reykjavik, Reykjavíkurborgar og Embættis forseta Íslands. „Við gerðum mjög góða umsókn þar sem bæði borgarstjóri Reykjavíkur og forseti Íslands buðu EURAM velkomin til landsins.“ Sjálfur hafi hann svo sótt fjölda funda í Evrópu síðastliðið ár til að vinna tillögunni fylgi. 

„Það er mjög ánægjulegt að þetta sé komið í höfn og nú verður lagður metnaður í að búa til einstakan viðburð sem skilur eftir þekkingu, góðvild og tengslanet fyrir íslenska akademíu og atvinnulíf,“ segir Eyþór Ívar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×