Viðskipti innlent

Hagnaður SS jókst um 11% milli ára

Haraldur Guðmundsson skrifar
Sláturfélagið er skráð á First-North markað Kauphallarinnar.
Sláturfélagið er skráð á First-North markað Kauphallarinnar. Vísir/GVA
Hagnaður Sláturfélags Suðurlands (SS) á fyrri helmingi ársins nam 255 milljónum króna og jókst um tæp 11 prósent á milli ára.

Í árshlutareikningi fyrirtækisins, sem samanstendur af reikningi SS og dótturfélagsins Reykjagarður hf., kemur fram að tekjur á fyrri árshelmingi námu 5,7 milljörðum króna og jukust um átta prósent milli ára. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði, EBIDTA, var 532 milljónir en 524 milljónir á sama tíma 2013.

„Gert er ráð fyrir áframhaldandi neikvæðum áhrifum af vaxandi innflutningi á kjöti á rekstur afurðahluta félagsins. Einnig ríkir nokkur óvissa með afsetningu á hluta kindakjötsafurða sem falla til í haust," segir í afkomutilkynningu SS. Þar segir einnig að aðalfundur félagsins hafi í mars síðastliðnum ákveðið að greiða 13,7 prósenta arð af B-deild stofnsjóðs, alls 25 milljónir.

„Staða lykilvörumerkja félagsins í kjötiðnaði er sterk og ímynd félagsins góð á markaði sem rennir stoðum undir frekari uppbyggingu á markaðsstöðu á komandi árum. Samt sem áður er reiknað með að erfiðar markaðsaðstæður á kjötmarkaði hafi neikvæð áhrif  á afkomu kjötiðnaðar á síðari árshelmingi."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×