Viðskipti innlent

Hagnaður Nova eykst um 44 prósent

ingvar haraldsson skrifar
Liv Bergþórsdóttir, forstjóri Nova á 2,52 prósenta hlut í fyrirtækinu.
Liv Bergþórsdóttir, forstjóri Nova á 2,52 prósenta hlut í fyrirtækinu.
Fjarskiptafyrirtækið Nova hagnaðist um 1.173 milljónir króna á síðasta ári sem er 44 prósent meiri hagnaður en í fyrra þegar hagnaðurinn nam 814 milljónum króna. Lagt er til að milljarður verði greiddur í arð vegna starfseminnar.

Í ársreikningnum kemur fram að viðskiptavinum Nova fjölgaði um 6,5 prósent á árinu 2015 og var heildarfjöldi viðskiptavina 145.734 í lok ársins. Samkvæmt tölfræðiskýrslu Póst- og fjarskiptastofnunar var Nova stærsta farsímafyrirtækið á Íslandi í lok árs 2015 með 34 prósent markaðshlutdeild í fjölda viðskiptavina, talið í fjölda virkra símkorta.

Tekjur námu 7,6 milljörðum króna og jukust um 1,2 milljarða á milli ára en árið 2014 voru tekjurnar 6,4 milljarðar króna.

Rekstrargjöld árið 2015 námu 5,6 milljörðum en 4,9 milljörðum árið 2014. Rekstrarhagnaður var 1,45 milljarðar í fyrra en 970 milljónir árið 2014. Þá var fjármunatekjur jákvæðar um 71 milljón í fyrra og 65,3 milljónir árið 2014.

Eignir Nova nema 5,1 milljarði króna, skuldir 1,4 milljarði króna og eigið fé 3,7 milljörðum króna og er eiginfjárhlutfall 71,9 prósent.

Félögin Novator ehf. og Novator Telecom Finland Sarl eiga samtals 93 prósenta hlut í Nova en Novator er fjárfestingafélag undir forystu Björgólfs Thors Björgólfssonar. Morgunblaðið greindi frá því að síðarnefnda félagið væru í eigu félaga á aflandseyjum.

Þá eiga tólf starfsmenn Nova samtals 7 prósenta hlut.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×