Viðskipti innlent

Hagnaður HB Granda tvöfaldaðist

Samúel Karl Ólason skrifar
Á fyrri árshelmingi ársins 2015 var afli skipa HB Granda 24 þúsund tonn af botnfiski og 88 þúsund tonn af uppsjávarfiski.
Á fyrri árshelmingi ársins 2015 var afli skipa HB Granda 24 þúsund tonn af botnfiski og 88 þúsund tonn af uppsjávarfiski. Vísir/GVA
Hagnaður sjávarútvegsfyrirtækisins HB Granda var 8,2 milljónir evra eða um 1200 milljónir króna (miðað við núverandi gengi) á öðrum ársfjórðungi þessa árs. Á fyrri helmingi ársins hefur fyrirtækið hagnast um 22 milljónir evra (um 3,2 milljarður króna) en hagnaðurinn var 10.6 milljónir evra árið áður.

Ársfjórðungsuppgjör HB Granda verður kynnt á opnum fundi á morgun, en helstu niðurstöður hafa verið birtar á vef fyrirtækisins. Þar segir að innflutningsbann sjávarafurða til Rússlands hafi mikil áhrif á markaðsstarf og starfsemi fyrirtækisins. Áhrifin verða sérstaklega mikil á Vopnafirði. Í fyrra komu um 17 prósent tekna HB Granda frá rússneskum aðilum.

„Erfitt er að meta fjárhagsleg áhrif þessa á HB Granda hf en gróflega áætlað munu tekjur félagsins lækka um u.þ.b. 10-15 milljónir evra á ársgrundvelli. Árið 2014 námu tekjur félagsins 215 milljónum evra. Félagið á nú um 3,2 milljónir evra í útistandandi kröfum í Rússlandi.“

Á fyrri árshelmingi ársins 2015 var afli skipa HB Granda 24 þúsund tonn af botnfiski og 88 þúsund tonn af uppsjávarfiski.

Rekstrartekjur HB Granda voru 57,1 milljón evra á öðrum ársfjórðungi en 110,4 milljónir á fyrri helmingi ársins. Í fyrra voru rekstrartekjurnar á fyrri árshelmingi 87,3 milljónir evra. Frá áramótum hafa birgðir fyrirtækisins aukist um 13,4 milljónir evra og er sú aukning rekin til árstíðasveiflna.

EBITDA var 9,9 milljónir evra á öðrum ársfjórðungi og 31,3 milljónir á fyrri árshelmingi. Í fyrra var EBITDA 9,5 milljónir á öðrum ársfjórðungi og 18,7 milljónir á fyrri árshelmingi. Handbært fé frá rekstri nam 18,2 milljónum evra á fyrri árshelmingi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×