Erlent

Hafsvæði við Suðurskautslandið gert að stærsta verndarsvæði sjávardýra í heiminum

Atli ísleifsson skrifar
Talið er að um 14 þúsund dýrategundir sé að finna á svæðinu sem um ræðir.
Talið er að um 14 þúsund dýrategundir sé að finna á svæðinu sem um ræðir. Vísir/AFP
Sendinefndir frá 24 löndum og Evrópusambandinu hafa komist að samkomulagi um að Rosshaf við Suðurskautslandið verði gert að stærsta verndarsvæði sjávardýra í heiminum.

Þannig verður hafsvæði sem mælist um 1,6 milljónir ferkílómetra alfriðað frá veiðum næstu 35 árin.

Viðræðurnar hafa farið fram á Tasmaníu í Ástralíu á síðustu dögum og hafa umhverfissamtök fagnað ákvörðuninni. Vonast þau til að Rosshaf verði aðeins fyrsta af mörgum slíkum verndarsvæðum á heimshöfunum.

Rosshaf er aðeins um tvö prósent af öllu Suður-Íshafinu en þar er afar fjölbreytt dýralíf og stórir stofnar mörgæsa, fugla og sjávarspendýra. Talið er að um 14 þúsund dýrategundir sé að finna á svæðinu sem um ræðir.

Suðurskautslandið sjálft hefur verið verndað allt frá árinu 1961 en þetta er í fyrsta sinn sem ákveðið er að vernda hafsvæði þar í kring.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×