Erlent

Hafa sprengt tvö forn hof við Palmyra

Samúel Karl Ólason skrifar
Áður en borgarastyrjöldin hófst í Sýrlandi fyrir um fjórum árum, voru rústirnar helsti ferðamannastaður Sýrlands.
Áður en borgarastyrjöldin hófst í Sýrlandi fyrir um fjórum árum, voru rústirnar helsti ferðamannastaður Sýrlands. Vísir/EPA
Vígamenn Íslamska ríkisins hafa sprengt í loft upp tvö forn hof nærri borginni Palmyra í Sýrlandi. Samtökin hertóku borgina fyrir um mánuði síðan, en þar eru ævafornar rústir frá tímum Rómverja. Óttast er að ISIS muni eyðileggja borgina, eins og þeir hafa þegar gert við fornar borgir í bæði Sýrlandi og Írak.

Samtökin hafa gefið út að öll hof og styttur sem hylli „heiðnum guðum“ verði eyðilögð.

Samkvæmt Al-Jazeera hefur Íslamska ríkið birt myndir sem sýna gereyðileggingu hofanna og er talið að þau hafi verið sprengd á laugardaginn. Annað hofið var byggt fyrir um fimm hundruð árum síðan.

Fregnir bárust nýverið af því að ISIS hefði komið fyrir sprengjum í rústum borgarinnar Palmyra, en hermenn ríkisstjórnar Sýrlands sitja nú um borgina. Mögulega vildu vígamennirnir reyna að koma í veg fyrir árás hersins með því að hóta því að eyðileggja rústirnar, sem eru á fornminjaskrá UNESCO.

Sjá einnig: ISIS sækir að fornum rústum

Samkvæmt UNESCO myndaðist Palmyra í kringum vin í eyðimörkinni, en Rómverjar tóku þar völdin á fyrstu öld. Flestar rústirnar eru frá þeim tíma, en borgin stóð á landamærum menningarheima og var hún byggð í stíl sem blandar saman grísk-rómverskum áhrifum við persnesk.

Áður en borgarastyrjöldin hófst í Sýrlandi fyrir um fjórum árum, voru rústirnar helsti ferðamannastaður Sýrlands.


Tengdar fréttir

Ár frá falli Mosul

Fall borgarinnar er álitið upphaf leiftursóknar ISIS inn í Írak.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×