Viðskipti innlent

Hafa fengið 45 milljónir í styrk

Hörður G. Kristinsson, rannsóknarstjóri hjá Matís og eigandi Marinox
Hörður G. Kristinsson, rannsóknarstjóri hjá Matís og eigandi Marinox Fréttablaðið/stefán karl
Marinox ehf. og Matís hafa saman sótt um og hlotið styrki úr Tækniþróunarsjóði upp á 45 milljónir króna frá árinu 2011.

Eins og Fréttablaðið greindi frá í síðustu viku er Hörður G. Kristinsson, rannsóknarstjóri Matís, líka stærsti eigandi Marinox, sem meðal annars framleiðir snyrtivörur undir vörumerkinu UNA Skincare. Þá kom fram að önnur snyrtivörufyrirtæki veigra sér við því að kaupa nauðsynlega þjónustu af Matís vegna þessarar stöðu rannsóknarstjórans gagnvart keppinautum sínum.

Styrkirnir sem Marinox hefur fengið frá Tækniþróunarsjóði hafa farið í rannsóknir á efnum úr íslensku þangi og afurðum unnum úr því. Um er að ræða markaðsrannsóknir og þróun aðferða við að framleiða nýjar vörur bæði fyrir matvælaiðnað og aðra markaði.

Tækniþróunarsjóður á að styðja við þróunarstarf og rannsóknir á sviði tækniþróunar sem miða að nýsköpun í íslensku atvinnulífi. Mikið er lagt upp úr samstarfi stofnana, háskóla og fyrirtækja auk þess sem styrkja á lítil verkefni á vegum einstaklinga og smáfyrirtækja sem eru líkleg til að verða atvinnu- og tekjuskapandi þrátt fyrir áhættu í upphafi, eins og segir í lögum um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun frá 2007.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×