Innlent

Hættustig lögreglunnar endurskilgreint: Óvissa um hryðjuverkaógn á Íslandi fer vaxandi

Bjarki Ármannsson skrifar
Sérsveit ríkislögreglustjóra á æfingu.
Sérsveit ríkislögreglustjóra á æfingu. Vísir/GVA
Óvissa um hryðjuverkaógn á Íslandi fer vaxandi og er hættustig vegna hryðjuverkaárása hér á landi nú í meðallagi, en það hefur verið talið lágt undanfarin ár. Það þýðir að almennt er talið að ekki sé hægt að útiloka hættu á hryðjuverkum vegna ástands innanlands eða í heimsmálum.

Þetta segir í nýju mati ríkislögreglustjóra á hættu af hryðjuverkum og öðrum stórfelldum árásum. Samkvæmt því sem þar segir býr greiningardeild ekki yfir upplýsingum um að í undirbúningi sé hryðjuverk gegn Íslendingum eða íslenskum hagsmunum. Þó skorti lögreglu upplýsingar til að leggja mat á mögulega ógn vegna takmarkaðra rannsóknarheimilda. Í matinu er lagt til að hugað verði að lagasetningu um auknar rannsóknarheimildir lögreglu vegna rannsókna hryðjuverkabrota.

Í síðasta mánuði kom fram í fréttum Vísis að greiningardeild ríkislögreglustjóra teldi ekki tilefni til að hækka hættustig hér á landi í kjölfar hryðjuverkanna í París. Þá sagði Ólöf Nordal innanríkisráðherra frekari rannsóknarheimildir lögreglunnar ekki hafa verið til umræðu undanfarið í ráðuneytinu.

Bardagamenn Íslamska ríkisins fari í gegnum Ísland

Í nýja matinu er einnig lagt til að hugað verði að lagasetningu sem banni ferðalög til þátttöku sem erlendir bardagamenn í hryðjuverkastarfsemi. Greiningardeild ríkislögreglustjóra búi yfir upplýsingum um að Ísland hafi verið notað sem „gegnumstreymisland“ manna frá Norður-Ameríku á leið til og frá þátttöku í bardögum í nafni Íslamska ríkisins í Mið-Austurlöndum.


Tengdar fréttir

Engar frekari rannsóknarheimildir lögreglu til umræðu

Ásgeir Karlsson, yfirmaður greiningardeildar ríkislögreglustjóra, sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að ekki hefði verið talið tilefni til að hækka vástig hér á landi í kjölfar hryðjuverkanna í París.

Óþarft að hækka vástig

Orð Ásmundar Friðrikssonar alþingismanns um könnun á bakgrunni íslenskra múslima vekja hörð viðbrögð. Hættustig vegna hryðjuverkaógnar er metið lágt á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×