Viðskipti innlent

Hægt að lágmarka sjónræn áhrif orkumannvirkja á landslag

Sæunn Gísladóttir skrifar
Gavin Lister, landslagsarkitekt.
Gavin Lister, landslagsarkitekt. Vísir/Landsvirkjun
„Hægt er að lágmarka sjónræn áhrif orkumannvirkja á landslag með því að vinna með sérkennum náttúrunnar í hönnuninni, það endurspeglar virðingu við umhverfið,“ segir Gavin Lister landslagsarkitekt og stofnandi Isthmus á málþingi Landsvirkjunar sem haldið var í dag á Hilton Reykjavík Nordica undir yfirskriftinni „Hvernig mótar orkuvinnsla umhverfið?” Fundurinn var haldinn í samstarfi við Félag íslenskra landslagsarkitekta og er liður í fundarröð í tilefni af 50 ára afmæli Landsvirkjunar. Um 180 manns sóttu fundinn segir í tilkynningu.

Í erindi sínu sagði Gavin Lister að það væri mikilvægt að hanna orkumannvirki á svipaðan hátt og borgir eru skipulagðar, heildarmyndin skiptir öllu máli. Mikilvægt væri að vanda til verka við hönnun og framkvæmda slíkra mannvirkja þar sem þau koma til með að móta umhverfið til framtíðar.

Aðrir framsögumenn voru Stefán Pálsson sagnfræðingur, Rut Kristinsdóttir, sviðsstjóri umhverfismats Skipulagsstofnunar, Helena Guttormsdóttir, lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands, Ólafur Páll Jónsson heimspekingur og Áslaug Traustadóttir, landslagsarkitekt hjá Landmótun. Fundarstjóri var Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar.

Gavin Lister er einn fremsti landslagsarkitekt Nýja Sjálands og stofnandi landslagsarkitektastofunnar Isthmus. Hann sérhæfir sig í heildrænni hönnun og framkvæmdum tengdum endurnýjanlegum orkugjöfum. Hann situr í Umhverfisskipulagsráði Aukland og hefur komið að ráðgjöf, þróun og hönnun á almenningssvæðum, innviðum og skipulagi borga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×