Innlent

Grunaður um árás á konu á heimili hennar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Árásin sem til rannsóknar er átti sér stað í heimahúsi í Móabarði í Hafnarfirði um áttaleytið á mánudagsmorgun. Lögregla leitar mannsins og hefur lýst eftir honum.
Árásin sem til rannsóknar er átti sér stað í heimahúsi í Móabarði í Hafnarfirði um áttaleytið á mánudagsmorgun. Lögregla leitar mannsins og hefur lýst eftir honum. Vísir/Daníel
Karlmaður sem var á ferðinni við Móabarð í Hafnarfirði um áttaleytið á mánudagsmorgun er grunaður um að hafa ráðist á móður sem var ein heima með ungbarn. Málið er til rannsóknar hjá kynferðisbrotadeild lögreglu sem leitar mannsins en hann er enn ófundinn.

Samkvæmt heimildum Vísis var móðirin heima hjá sér á mánudagsmorgun þegar maður bankaði upp á. Hann mun hafa villt á sér heimildir með því að segjast þurfa að lesa af mælum. Konan hafi hleypt honum inn og hann í kjölfarið ráðist á hana. Grunur leikur á að ekki sé aðeins um alvarlegt ofbeldisbrot að ræða heldur einnig kynferðisbrot.

Sjá einnig:Starfsmenn orkufyrirtækja einkennisklæddir

Árni Þór Sigmundsson, yfirmaður deildarinnar, segir lögreglu verjast allra fregna af málinu og vill ekkert um málið segja. Þó herma heimildir Vísis að málið sé algjört forgangsmál lögreglu en rannsókn á viðkvæmu stigi.

Lögregla auglýsti í gær eftir upplýsingum um manninn. Hann er um 180 sm á hæð og fölleitur, var dökklæddur, með svarta húfu og svarta hanska. Hann er talinn vera á aldrinum 35–45 ára.

Þeir sem geta veitt upplýsingar um manninn og ferðir hans eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögreglu á skrifstofutíma í síma 444 1000. Upplýsingum má einnig koma á framfæri á netfangið abending@lrh.is eða í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×