Viðskipti erlent

Gríska hlutabréfavísitalan féll við opnun kauphallar

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Maður smellir mynd af miklu falli hlutabréfa í Grikklandi þegar kauphöllin í Aþenu var opnuð á ný eftir fimm vikna lokun.
Maður smellir mynd af miklu falli hlutabréfa í Grikklandi þegar kauphöllin í Aþenu var opnuð á ný eftir fimm vikna lokun. nordicphotos/afp
Gríska hlutabréfavísitalan hríðféll þegar kauphöllin í Aþenu var opnuð í gær. Kauphöllin hafði verið lokuð undanfarnar fimm vikur frá því gjaldeyrishöftum var komið á þegar skuldakreppa ríkisins stóð sem hæst.

Einungis nokkrum mínútum eftir að opnað var fyrir viðskipti féll vísitalan um 22,87 prósent. Þegar leið á daginn batnaði staðan þó örlítið en þegar lokað var fyrir viðskipti stóð lækkunin í 16,23 prósentum.

Markaðsvirði stærstu banka Grikklands, Píreus-banka, Landsbankans, Alpha-banka og Euro-banka, lækkaði talsvert, eða um þrjátíu prósent. Meiri lækkun er ekki leyfileg.

Til samanburðar við fall vísitölunnar í gær má nefna að mesta fall vísitölu á einum degi var fall hinnar bandarísku Dow Jones þann nítjánda október 1987, á hinum svokallaða svarta mánudegi. Þá féll Dow Jones um 22,61 prósent.

Fall vísitölunnar var þó fyrirsjáanlegt. „Það eru engar líkur á að nokkur hlutabréf hækki á morgun,“ sagði fjárfestirinn Takis Zamanis við fréttastofu Reuters á sunnudaginn.

Stjórnarformaður kauphallarinnar, Kostas Botopoulos, tjáði sig um opnun markaðarins við fjölmiðla í gær. „Það er mjög mikilvægt að við séum að opna. Auðvitað búumst við við erfiðu ástandi en við verðum á staðnum til að fylgjast með því sem fram fer,“ sagði hann.

Auðvitað búumst við við miklu álagi. Markaðurinn mun bregðast við þessari löngu lokun.

Við munum ekki láta einn dag slá okkur út af laginu. Við verðum að bíða til vikuloka til að sjá hvernig ástandið verður,“ sagði Botopoulos.

Samkvæmt skilyrðum grísku ríkisstjórnarinnar og Seðlabanka Evrópu fyrir opnuninni máttu grískir fjárfestar ekki kaupa hlutabréf fyrir peninga af bankareikningum sínum, einungis reiðufé. Þau skilyrði eru í samræmi við höft á lausafjárúttektum grískra ríkisborgara, en einungis er heimilt að taka 420 evrur út úr bönkum á viku. Erlendir fjárfestar mega hins vegar fjárfesta fyrir það fé sem þeir eiga.

Þegar kauphöllinni var lokað í lok júní óttuðust margir algjört gjaldþrot Grikklands og brotthvarf þess af evrusvæðinu. Nú eru hins vegar samningaviðræður í gangi um 86 milljarða evra neyðaraðstoð fyrir gríska ríkið frá Seðlabanka Evrópu og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Ólíklegt þykir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn taki þátt í neyðaraðstoðinni þar sem skilyrði sjóðsins er umfangsmikil niðurfelling hluta skulda Grikkja. Evrópusambandið er andvígt niðurfellingunni en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir hana nauðsynlega. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×