Viðskipti innlent

Gjaldeyrishöftin eins og eiturlyf fyrir þjóðina

Már Guðmundsson.
Már Guðmundsson.
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri Íslands, líkir gjaldeyrishöftunum við eiturlyf sem þjóðin þarf að venja sig af, enda lífskjörum haldið uppi með höftunum. Þetta kom fram á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis sem var sjónvarpað beint. Með Má var Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri og svo Gylfi Zöega, sem situr í peningastefnunefnd.

Á fundinum var farið nokkuð víða. Már hóf fundinn á því að kynna störf bankans síðan síðasti fundur fór fram, sem var skömmu fyrir jól. Hann sagði spár Seðlabankans um verðbólgu hefði gengið eftir en peningastefnunefndin hefði tekið ákvörðun um hóflega hækkun á vöxtum sem Már taldi að ynni á móti verðbólgunni án þess að hafa skaðleg áhrif á efnahagsbatann.

Hann sagði aðspurður að hert gjaldeyrislög hefði ákveðna galla í för með sér. Þannig var það lögfest að gjaldeyrishöftin skal afnema á næsta ári. Már benti á að slíkt skerti samningsstöðu þeirra sem notast við krónuna, í raun væri betra að hafa meiri tíma og þá um leið svigrúm til þess að semja.

Helgi Hjörvar, formaður nefndarinnar, spurði hvort menn myndu freistast til þess að seinka gjaldeyrishaftavandanum til þess að búa til fölsk lífskjör hér á landi. Már líkti þá gjaldeyrishöftunum við eiturlyf sem þyrfti að venja sig af. Hann dró þó úr þeirri líkingu síðar og sagði hana ekki heppilega. Tryggvi Þór Herbertsson benti þá á að honum fyndist eiturlyfjalíkingin ágæt og bætti við að það væri almenn regla fyrir fíkla að hætta snögglega á eiturlyfjunum og taka afleiðingarnar út strax. Sjálfur teldi hann það heppilega leið varðandi gjaldeyrishöftin.

Már var þessu ekki sammála. Hann sagði það ekki góða lausn að taka skellinn og halda svo áfram. Það þyrfti að milda áhrifin.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×