Viðskipti erlent

Gagnslausar vatnsbyssur gegn mengun í Kína

Finnur Thorlacius skrifar
Hin ógnarstóra vatnsbyssa í Xi´an.
Hin ógnarstóra vatnsbyssa í Xi´an.
Full ástæða er til að sporna við þeirri miklu mengun sem víða er í borgum Kína. Kínverjar hafa reynt ýmislegt til að glíma við þennan ófögnuð, en ekki eru allar tilraunir þeirra árangursríkar.

Þeim í borginni Xi´an í Shaanxi héraði datt það „snjallræði“ í hug að smíða ógnarstóra vatnsbyssu sem vegur ein 10 tonn, en hún sprautar vatnsdropum í 600 metra hæð sem ætlað er að binda óþverrann í loftinu og láta hann rigna niður með dropunum.

Þessi tilraun hefur þó ekki náð tilætluðum árangri þar sem agnirnar sem valda menguninni eru minni en svo að þær bindist vatninu. Byssan er heppilegri til að binda ryk sem rýkur upp af byggingarsvæðum.

Agnirnar sem valda mestri mengun eru minni en 2,5 PM af stærð og þær halda áfram að svífa í andrúmsloftinu í Xi´an og smjúga í öndunarfæri íbúa þar sem fyrr. Smíði byssunnar kostaði um 17 milljónir króna og vonandi finnst eitthvert hæfilegt verkefni fyrir hana, en hún leysir ekki þann vanda sem henni var upphaflega ætlað. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×