Fótbolti

Ó­trú­legur árangur Glódísar og Bayern en Selma fallin

Sindri Sverrisson skrifar
Glódís Perla Viggósdóttir er lykilmaður og fyrirliði Bayern sem fagnaði þýska meistaratitlinum um síðustu helgi.
Glódís Perla Viggósdóttir er lykilmaður og fyrirliði Bayern sem fagnaði þýska meistaratitlinum um síðustu helgi. Getty/Max Ellerbrake

Fyrirliðinn Glódís Perla Viggósdóttir var á sínum stað í vörn Bayern München þegar liðið vann öruggan 4-0 sigur á Nürnberg, liði Selmu Sólar Magnúsdóttur, sem þar með er formlega fallið niður um deild.

Glódís og stöllur í Bayern fögnuðu þýska meistaratitlinum í fótbolta um síðustu helgi en urðu svo að sætta sig við tap gegn Wolfsburg, liði Sveindísar Jane Jónsdóttur, í bikarúrslitaleik á fimmtudaginn.

Það tap sat ekki í Bayern í dag og hin danska Pernille Harder skoraði þrennu á fyrstu tuttugu mínútunum, sem gerði út um leikinn.

Bayern hefur þar með spilað sinn síðasta heimaleik á tímabilinu og þar hefur liðið aðeins fengið á sig samtals eitt mark í öllum ellefu deildarleikjunum. Bayern er auk þess ekki búið að tapa einum einasta deildarleik á tímabilinu og þarf aðeins að forðast tap gegn Hoffenheim á útivelli í lokaumferðinni, til að fara taplaust í gegnum tímabilið.

Nürnberg átti hins vegar enga von um að halda sér uppi fyrir leikinn í dag, í næstneðsta sæti, sex stigum á eftir Köln, og með 25 mörkum verri markatölu. Tapið í dag var því aðeins formleg staðfesting á því að Nürnberg þarf að spila í næstefstu deild á næstu leiktíð, en Selma kom til félagsins frá Rosenborg í Noregi í janúar.

Sárt tap hjá Þórdísi

Í Svíþjóð þurfti Þórdís Elva Ágústsdóttir að sætta sig við sárt tap í dag þegar lið hennar Växjö tapaði 3-2 á útivelli gegn Brommapojkarna, eftir að hafa komist í 2-0. Sigurmarkið kom seint í uppbótartíma.

Þórdís kom inn á sem varamaður hjá Växjö á 58. mínútu en landsliðsframherjinn Bryndís Arna Níelsdóttir er frá keppni eftir að hafa viðbeinsbrotnað í síðasta mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×