Erlent

Stuðningur við dönsku ríkis­stjórnina aldrei verið minni

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Fylgi ríkisstjórnarinnar telst sögulega lítið.
Fylgi ríkisstjórnarinnar telst sögulega lítið. EPA/Martin Sylvest

Stuðningur við dönsku ríkisstjórnina hefur aldrei mælst lægri samkvæmt nýrri skoðanakönnun sem framkvæmd var af Epinion. 31,5 prósent landsmanna kysi ríkisstjórnarflokkana þrjá ef gengið yrði til kosninga í dag.

Þetta er lækkun um 18,6 prósentustig frá kosningunum í nóvember 2022 þar sem 50,1 prósent kusu Sósíaldemókrataflokkinn, Ventre eða Moderaterne sem mynduðu svo ríkisstjórn.

Danska ríkisútvarpið hefur eftir Kasper Møller Hansen, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla, að ríkisstjórnin sé sú ríkisstjórn sem mestu fylgi hefur tapað og hraðast í sögu dansks lýðræðis.

„Sérstaklega þegar haft er í huga að hún byrjaði sem meirihlutastjórn. Nú heldur niðursveiflan bara áfram hjá ríkisstjórninni og hún er virkilega erfið,“ segir hann.

Liberal Alliance og Danmerkurdemókratar eru þeir flokkar sem mest fylgi hafa grætt síðan gengið var síðast til kosninga. 16,3 prósent aðspurðra sögðust ætla að kjósa Liberal Alliance sem er tvöföldun þess fylgis sem flokkurinn hlaut í þingkosningum 2022.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×