Veður

Gul við­vörun á Norðurlandi eystra

Jón Þór Stefánsson skrifar
Gul viðvörun er á Norðurlandi eystra líkt og sjá má á kortinu.
Gul viðvörun er á Norðurlandi eystra líkt og sjá má á kortinu. Veðurstofa Íslands

Gul viðvörun er á Norðurlandi eystra á milli klukkan ellefu og fimm í dag. Ástæðan er suðvestan stormur, sem gæti verið hvað verstur á Tröllaskaga. Vindhviður munu víða vera yfir 35 metra á sekúndu að sögn Veðurstofu.

Fólk á Norðurlandi eystra er hvatt til að ganga frá lausamunum, og þá er bent á að um sé að ræða varasamt ferðaveður.

Í textaspá Veðurstofunnar segir að stuðvestan strekkingur sé í dag, en að það muni létta smám saman til.

Í kvöld og nótt muni draga úr vindi. „Fremur hæg, suðlæg eða breytileg átt á morgun og bjartviðri, en skýjað með köflum við vesturströndina fyrripart dags,“ segir í spánni.

Búist er við því að hiti verði á bilinu fjögur til tólf stig, og mildast syðst.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á mánudag og þriðjudag:

Fremur hæg suðlæg eða breytileg átt og léttskýjað, en skýjað með köflum við vesturströndina. Hiti 4 til 12 stig, hlýjast á Suðurlandi.

Á miðvikudag:

Austan og suðaustan 3-10 m/s. Víða bjartviðri, en skýjað með köflum við ströndina. Hiti 6 til 12 stig vestanlands, en um 0 til 4 stig fyrir austan.

Á fimmtudag og föstudag:

Fremur hæg norðlæg átt og bjart með köflum. Hiti 5 til 10 stig að deginum suðvestanlands, en um frostmark á Norður- og Austurlandi.

Á laugardag:

Útlit fyrir norðaustlæga átt og þurrt að kalla, en stöku él syðst. Hiti breytist lítið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×