Lífið

Bauð öllum bæjar­búum í matar­boð

Árni Sæberg og Margrét Helga Erlingsdóttir skrifa
Skagamenn voru hæstánægðir með framtakið og skáluðu fyrir Akranesi, samverunni og Hrund.
Skagamenn voru hæstánægðir með framtakið og skáluðu fyrir Akranesi, samverunni og Hrund. Vísir

Íbúi á Akranesi tók sig til í kvöld og hélt opið matarboð þar sem allir bæjarbúar voru boðnir velkomnir. Stefnan er sett á að halda slíkt matarboð mánaðarlega og gestgjafinn leggur áherslu á mikilvægi þess að fólk setjist niður og borði saman.

Húsfyllir var hjá Hrund Heiðrúnardóttur á Skaganum í kvöld enda láta fáir ódýran kvöldverð í góðum félagsskap fram hjá sér fara, síst af öllum Skagamenn. Fréttamaður okkar gerði sér leið upp á Akranes til þess að vera með í gleðinni.

Hrund segir viðburðinn ekki hafa verið flókinn. Fólk hafi einfaldlega verið saman komið til þess að setjast niður og fá sér kvöldmat saman. „Það er enginn að fara að vinna neinar Michelin-stjörnur, þetta er bara heimilismatur,“ segir hún hógvær en heimildir fréttastofu herma að maturinn hafi verið gómsætur.

Mikilvægt að borða saman

Hrund segir að öllum hafi verið boðið, algjörlega óháð stétt, stöðu, aldri og fyrri störfum.

„Þetta er bara samvera. Ég bý ein sjálf og hef borðað töluvert margar máltíðir ein. Ég veit að stundum þarf maður að geta sest niður og borðað með einhverjum.“

Alls ekki síðasta kvöldmáltíðin

Hrund segir matarboðið í kvöld ekki vera það síðasta. Hún stefni sjálf á að bjóða í mat mánaðarlega og hvetur aðra til þess að gera slíkt hið sama.

Að lokum lyftu viðstaddir glösum og skáluðu fyrir Akranesi, samverunni og Hrund, auðvitað.

Gestir greiða þúsund krónur fyrir fullorðna og fimm hundruð krónur fyrir börn, fyrir hráefniskostnaði. 

Matarboðið á Akranesi var meðal þess sem fjallað var um í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld. Fréttatímann má sjá í heild sinni í spilaranum hér að neðan:






Fleiri fréttir

Sjá meira


×