Viðskipti innlent

Tinder-not­endur fá að vita hvers vegna þeim er boðinn af­sláttur

Kjartan Kjartansson skrifar
Hægt er að borgar fyrir úrvalsþjónustu í Tinder-forritinu. Miðillinn notaði sjálfvirkar aðferðir til þess að bjóða þeim sem höfðu ekki áhuga á þjónustunni persónusniðinn afslátt án þess að gera þeim grein fyrir því.
Hægt er að borgar fyrir úrvalsþjónustu í Tinder-forritinu. Miðillinn notaði sjálfvirkar aðferðir til þess að bjóða þeim sem höfðu ekki áhuga á þjónustunni persónusniðinn afslátt án þess að gera þeim grein fyrir því. Vísir/EPA

Stefnumótaforritið Tinder þarf að byrja að láta notendur sem það býður persónusniðinn afslátt vita hvers vegna í þessum mánuði. Þetta er niðurstaða samráðs við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og neytendayfirvöld sem töldu ósanngjarnt að upplýsa ekki neytendur um hvers vegna afsláttartilboðum væri haldið að þeim.

Sænsk neytendasamtök komust að því árið 2022 að Tinder rukkaði notendur sína um mismunandi verð án þess að skýrt mynstur væri um hvaða breytur réði verðinu. Athugun á viðskiptaháttum Tinder á vegum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og sænskra og hollenskra neytendayfirvalda hófst í júlí 2022.

Í ljós kom að Tinder notaði sjálfvirkar aðferðir til þess að finna notendur sem höfðu lítinn eða engan áhuga á sérstakri úrvalsþjónustu sem Tinder býður upp á og greiða þarf fyrir sérstaklega fyrir ólíkt hefðbundinni útgáfu forritsins. Þeim notendum var síðan boðinn persónusniðinn afsláttur.

Evrópsk neytendayfirvöld komust að þeirri niðurstöðu að Tinder hefði beitti þessum aðferðum án þess að upplýsa neytendur sína en það er brot á neytendalöggjöf Evrópusambandsins, að því er kemur fram í tilkynningu á vef Neytendastofu. Tinder bauð einnig afslátt á úrvalsþjónustunni á grundvelli aldurs notenda án þess að láta þá vita.

Samkvæmt reglum Evrópusambandsins verða fyrirtæki að veita neytendum rétta rupplýsingar og forðast að villa um fyrir þeim til að hafa áhrif á ákvörðun þeirra um viðskipti. Fyrirtæki verða að upplýsa neytendur um persónusniðið verð sem byggist á sjálfvirkri aðferð.

Tinder hefur nú skuldbundið sig til þess að upplýsa neytendur um hvers vegna þeim var boðinn persónsniðinn afsláttur, til dæmis ef þeir höfðu ekki áhuga á þjónustunni á venjulegi verði. Miðilinn ætlar einnig að upplýsa neytendur skýrt um að sjálfvirkar aðferðir hafi verið notaðar til þess að bjóða þeim afslátt og að beita ekki persónusniðinni verðlagningu á grundvelli aldurs notenda án þess að upplýsa um það skýrt fyrirfram.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×