Handbolti

Fjór­tán ís­lensk mörk er Melsungen og Flensburg skildu jöfn

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Elvar Örn Jónsson skoraði sjö mörk fyrir Melsungen í kvöld.
Elvar Örn Jónsson skoraði sjö mörk fyrir Melsungen í kvöld. Handball World

Íslendingaliðin MT Melsungen og Flensburg gerðu 25-25 jafntefli er liðin mættust í þýska handboltanum í kvöld.

Það voru markverðir liðanna sem voru í aðalhlutverki í leik kvöldsins og því var lítið skorað. Nebojsa Simic var lengi vel með yfir fimmtíu prosent vörslu í liði Melsungen og Benjamin Buric kom vel inn í markið hjá Flensburg eftir að Kevin Møller hafði átt dapran dag.

Það var lítið sem ekkert sem gat skilið liðin að í kvöld, en heimamenn í Melsungen höfðu þó yfirhöndina í fyrri hálfleik og leiddu með þremur mörkum að honum loknum, staðan 13-10.

Gestirnir í Felnsburg skoruðu hins vegar fyrstu þrjú mörk seinni hálfleiks og jöfnuðu metin. Eftir það skiptust liðin á að skora og þrátt fyrir að heimamenn hafi náð þriggja marka forskoti á nýjan leik í stöðunni 22-19 klóruðu gestirnir sig aftur inn í leikinn og leiddu 24-25 þegar um tíu sekúndur voru til leiksloka.

Það var hins vegar Ivan Martinovic sem reyndist hetja Melsungen þegar hann jafnaði metin með síðasta skoti leiksins og niðurstaðan varð 25-25 jafntefli.

Íslendingarnir þrír sem tóku þátt í leiknum voru drjúgir í markaskorun og var Elvar Örn Jónsson markahæsti maður vallarins með sjö mrök fyrir Melsungen. Arnar Freyr Arnarsson bætti þremur mörkum við fyrir liðið og Teitur Örn Einarsson skoraði fjögur mörk fyrir Flensburg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×