Formúla 1

Vatna­skil hjá Red Bull og ris­a­f­réttir fyrir For­múlu 1

Aron Guðmundsson skrifar
Adrian Newey hefur gegnt lykilhlutverki í yfirburðum Red Bull Racing í Formúlu 1
Adrian Newey hefur gegnt lykilhlutverki í yfirburðum Red Bull Racing í Formúlu 1 Vísir/Getty

Í gær bárust stórar fréttir úr heimi For­múlu 1. Adrian Newey, aðal hönnuðurinn að baki keppnis­bílum Red Bull frá árinu 2006. Maðurinn sem er jafnan talinn vera heilinn að baki þeim þrettán heims­meistara­titlum sem liðið hefur unnið síðan að hann gekk til liðs við það, er á förum í upp­hafi næsta árs.

Orð­rómar þess efnis höfðu verið á kreiki undan­farnar vikur en í gær var það stað­fest að orð­rómarnir væru á rökum reistir. Newey mun halda á­fram að vinna að hönnun RB17, keppnis­bíls Red Bull Ra­cing fyrir tíma­bilið 2026 út þetta ár en er ekki lengur hluti af nú­verandi For­múlu 1 verk­efni liðsins er snýr að þessu sem og næsta tíma­bili. Tíma­bilið 2026 verður það fyrsta þar sem keppt verður á nýrri kyn­slóð For­múlu 1 bíla. Það er verk­efnið sem Newey vinnur nú að hjá Red Bull.

Brott­hvarf Newey úr her­búðum Red Bull Ra­cing eru fréttir af þeirri stærðar­gráðu að um mikil vatna­skil er talið að ræða fyrir liðið. Newey er af mörgum talinn besti hönnuður For­múlu 1 mótaraðarinnar frá upp­hafi og hefur komið að fimm­tán meistara­titlum hjá þeim liðum sem hann hefur starfað hjá innan For­múlu 1.Nokkuð ljóst þykir þó að Bretinn knái ætli sér ekki að yfir­gefa móta­röðina að fullu.

Telja má nokkuð öruggt að öll lið í For­múlu 1 hafi á­huga á því að fá hann til liðs við sig. Hins vegar eru að­eins örfá sem að munu hafa mögu­leika á því. Ítalski risinn Ferrari fer þar fremstur í flokki.

Sky Sports hefur heimildir fyrir því að for­ráða­menn Ferrari hafi nú þegar sett sig í sam­band við Newey, sem mun ekki þurfa að stíga frá móta­röðinni í á­kveðin tíma eftir brott­hvarf sitt frá Red Bull Ra­cing, þar til að hann stígur aftur fæti þangað inn.

Hann gæti því tækni­lega séð komið sér fyrir hjá öðru liði og lagt þar eitt­hvað af mörkum í hönnun 2026 bílsins hjá um­ræddu liði þó svo að nú þegar séu For­múlu 1 liðin komin á fullt í þeirri vinnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×