Handbolti

Tíu marka sigur í fyrsta leik úr­slita­keppninnar

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Óðinn Þór Ríkharðsson er leikmaður Kadetten Schaffhausen.
Óðinn Þór Ríkharðsson er leikmaður Kadetten Schaffhausen. Vísir/Getty

Kadetten Schaffhausen, lið Óðins Þórs Ríkharðssonar, vann fyrsta leik sinn í úrslitakeppni svissnesku úrvalsdeildarinnar, 34-24 gegn Wacker Thun. 

Óðinn skoraði sjö mörk, þar af fjögur af vítalínunni. 

Þeir eru ríkjandi meistarar og unnu 24 af 27 leikjum sínum í deildinni á þessu tímabili. Sigurinn var aldrei í hættu hjá þeim í dag, lið Wacker Thun er meiðslahrjáð og mátti sín lítils gegn meisturunum. Það bætti ekki úr sök að Cedric Manse, einn besti leikmaður liðsins, fékk rautt spjald eftir aðeins fimmtán mínútna leik. 

Þetta einvígi er hluti af 8-liða úrslitum deildarinnar. Spilað er í fimm leikja fyrirkomulagi, þar sem lið vinnur einvígi eftir þrjá sigurleiki. 

Vegna þátttöku Kadetten Schaffhausen í Evrópukeppni klárast einvígi þeirra fjórum dögum síðar en önnur einvígi. 

Fari svo að Kadetten vinni tvo leiki til viðbótar af næstu fjórum mæta þeir annað hvort Pfadi Winterthur eða HSC Suhr Aarau í næstu umferð. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×