Enski boltinn

Banna boltakrökkum að skila boltanum til leik­manna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Boltakrakkarnir verða að passa sig hér eftir. Þeir mega ekki lengur senda boltann á leikmennina.
Boltakrakkarnir verða að passa sig hér eftir. Þeir mega ekki lengur senda boltann á leikmennina. Getty/Craig Foy

Boltakrakkar hafa stundum stolið senunni í fótboltaleikjum í gegnum tíðina með því að hjálpa sínum liðum með að koma boltanum fljótt í leik.

Hver man ekki eftir því þegar boltastrákurinn á leik Liverpool og Barcelona í Meistaradeildinni hjálpaði Trent Alexander Arnold að taka hornspyrnuna strax sem skilaði marki sem kom Börsungum algjörlega á óvart.

Jose Mourinho er líka knattspyrnustjóri sem hefur hrósað boltakrökkum fyrir frammistöðu sína á hliðarlínunni.

Það kom aftur upp mjög neikvæð umræða eftir atvik sem varð á milli Mark Robins, knattspyrnustjóra Coventry City og boltastráks í bikarleik á móti Úlfunum á dögunum. Robins var gagnrýndur fyrir framkomu sína við krakkann en stjórinn taldi hann vera að tefja leikinn. Hann bað strákinn seinna afsökunar.

Það eru fleiri dæmi. Bernd Leno hjá Fulham lenti líka í útistöðum við boltastrák í leik í ensku úrvalsdeildinni á móti Bournemouth í desember.

Þó að enska úrvalsdeildin haldi því fram að nýja ákvörðunin sé ekki tekin vegna þessara einstöku atvika þá er engin vafi á því að þau höfðu áhrif.

Enska úrvalsdeildin hefur nefnilega tilkynnt um reglubreytingu þar sem kemur fram að boltakrakkar mega bara ná í boltann og stilla honum upp á ákveðna staði. Þeir mega ekki lengur henda boltanum til leikmanna liðanna.

Ástæðan er fyrst og fremst sögð vera sú að þarna sé að koma í veg fyrir mögulegt forskot heimaliða í leikjunum. Boltakrakkarnir mega heldur ekki sitja fyrir framan auglýsingaskiltin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×