Viðskipti innlent

Ís­land ekki nógu spennandi á­fanga­staður fyrir Ryanair

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Michael O'Leary forstjóri Ryanair segir Keflavíkurflugvöll allt of dýran.
Michael O'Leary forstjóri Ryanair segir Keflavíkurflugvöll allt of dýran. Getty/Horacio Villalobos

Forstjóri írska lággjaldaflugfélagsins Ryanair segir Keflavíkurflugvöll of dýran og Ísland ekki nógu spennandi áfangastað til þess að félagið geri landið að einum áfangastaða. 

Ryanair er það flugfélag sem flytur flesta farþega innan Evrópu. Félagið hefur hátt í áttatíu starfsstöðvar um alla álfuna en Ísland er eina landið í Vestur-Evrópu sem félagið flýgur ekki til. Möguleikar þess efnis hafa verið kannaðir, eins og rakið er í frétt FF7 um málið, en ekkert orðið úr þeim athugunum. 

Blaðamaður FF7 sótti í síðustu viku ráðstefnu evrópskra flugfélaga, þar sem hann fékk að ræða stuttlega við Michael O'Leary, forstjóra Ryanair, og spurði hvers vegna félagið flygi ekki hingað til lands. 

„Ég millilenti einu sinni á Íslandi á leið heim með nýja þotu frá Boeing. Klukkan var 7 um morgun og ég hélt við hefðum lent á myrku hlið mánans,“ svaraði O'Leary. 

Hann hélt svo áfram og sagði Keflavíkurflugvöll of dýran. Það væri til þess að standa vörð um Icelandair og „þau“ vilji Ryanair ekki inn á markaðinn til að veita almennilega samkeppni. 

„Í öðru lagi er of langt að fljúga þangað og markaðurinn býður ekki upp á mikinn fjölda farþega. Við erum meira fyrir styttri flugleiðir þar sem farþegahópurinn er stór,“ segir O'Leary í samtali við FF7. 

Lýsir blaðamaðurinn því næst að O'Leary hafi fullyrt að íslensku flugfélögin fljúgi aðeins til Dyflinar einu sinni í viku, sem er fjarri sanni. Hann hafi rekið upp undrunaróp þegar blaðamaðurinn fullyrti að íslensku flugfélögin fljúgi daglega til Dyflinar, hvort um sig. 

Að lokum hafi O'Leary snúið sér að blaðamanni FF7 og sagt í kveðjuskyni um Ísland: „Á markaðssvæði okkar eru einfaldlega miklu meira spennandi áfangastaðir, sem við viljum heldur fljúga til.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×