Viðskipti innlent

Ey­dís og Þor­valdur til Genís

Atli Ísleifsson skrifar
Eydís Einarsdóttir og Þorvaldur Ingvarsson.
Eydís Einarsdóttir og Þorvaldur Ingvarsson. Aðsend

Eydís Einarsdóttir og Þorvaldur Ingvarsson hafa verið ráðin til starfa hjá líftæknifyrirtækinu Genís á Siglufirði.

Í tilkynningu segir að Eydís hafi verið ráðin í nýja stöðu framkvæmdastjóra gæða- og tæknimála og þá mun Þorvaldur veita félaginu ráðgjöf á sviði beinígræðslu og lækningatækja.

„Eydís hefur undanfarin sjö ár starfað hjá Alvotech, nú síðast sem yfirmaður og sérfræðingur á sviði gæðamála, og þar áður m.a. hjá spænska lyfjafyrirtækinu PharmaMar í Madrid og hjá ArcticMass á Íslandi. Eydís er með Ph.D. og M.Sc. í lyfjavísindum frá Háskóla Íslands og hefur víðtæka reynslu af lyfjaþróun og gæðamálum. Hún hefur þegar tekið til starfa.

Þá hefur Þorvaldur Ingvarsson einnig gengið til liðs við Genís hf. og mun veita félaginu ráðgjöf á sviði beinígræðslu og lækningatækja. Þorvaldur útskrifaðist úr læknadeild Háskóla Íslands árið 1987 og hlaut doktorsgráðu í bæklunarskurðlækningum frá Háskólanum í Lundi árið 2000. Hann starfar sem bæklunarlæknir í Orkuhúsinu, sem og við Landspítala og á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Þorvaldur situr í stjórn Medor, í háskólaráði Háskóla Íslands og er prófessor við Heilbrigðisvísindastofnun HA. Áður starfaði hann sem framkvæmdastjóri rannsóknar- og þróunarsviðs Össurar hf., þar sem hann leiddi þróun og nýsköpun á lækningatækjum, og var dósent við læknadeild Háskóla Íslands. Hann hefur einnig verið forstjóri og lækningaforstjóri Sjúkrahússins á Akureyri. Þorvaldur hefur víðtæka reynslu af störfum innan heilbrigðisgeirans sem stjórnandi, læknir og ráðgjafi“ segir í tilkynningunni. 

Íslenska líftæknifyrirtækið Genís hf. hefur um tveggja áratuga skeið unnið að rannsóknum og þróun á lífvirkum kítínfásykrum til notkunar í fæðubótarefnum, lyfjum og við beinígræðslu. Fyrirtækið var stofnað árið 2005 og eru höfuðstöðvar og framleiðsla þess á Siglufirði.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×