Viðskipti innlent

Engin löndun í bili í Grinda­vík

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Hjálmar Hallgrímsson, formaður bæjarráðs Grindavíkur og lögreglumaður.
Hjálmar Hallgrímsson, formaður bæjarráðs Grindavíkur og lögreglumaður.

Ekki verður landað í dag í Grindavík eins og vonir stóðu til um. Hafnarstjóri segir varnargarða þó hafa blásið mönnum byr í brjóst. Fyrirtæki fá að fara inn í bæinn í dag en fyrst stóð til að það yrði ekki leyft. 

„Það verður ekkert landað í dag og ólíklega á morgun. Við erum alltaf bara með sömu óvissuna. En aðalatriðið er að þessir varnargarðar eru að gera kraftaverk,“ segir Hjálmar Hallgrímsson formaður bæjarráðs Grindavíkur í samtali við Vísi. Hann sagðist í gær skynja bjartsýni meðal bæjarbúa og bjarta framtíð framundan.

Sett í gang um leið og neyðarstigi er aflétt

Sigurður Kristmundsson, hafnarstjóri í Grindavík, tekur í svipaðan streng í samtali við Vísi. Hann segir að til hafi staðið að það yrði landað í dag en það sé ekki heimilt þar sem enn sé talin möguleg hætta á ferðum af völdum mengunar frá eldgosinu.

„Mögulega um leið og neyðarstigi er aflétt munum við bara vonandi setja í gang og reyna að ná eitthvað af þessum verðmætum inn til okkar. Menn urðu virkilega bjartsýnir með þessar mótvægisaðgerðir sem varnargarðarnir eru, hafa sýnt sig að virki mjög vel og fyrirtækin mörg hver eru bjartsýn með þetta. Þá er þetta einhver gasmökkur og einhver hætta á mengun. Vonandi förum við bara í gang á morgun eða hinn.“

Þá hafa Fiskifréttir eftir Gunnari Tómasyni, framkvæmdastjóra Þorbjarnar í Grindavík, að forsvarsmönnum fyrirtækja hafi verið hleypt inn í bæinn í dag. Áður hafi staðið til að þeim yrði meinað að fara inn í bæinn í dag en almannavarnir hafi látið undan kröfum fyrirtækjanna.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×