Viðskipti innlent

SFF fá nýtt nafn en verða á­fram SFF

Atli Ísleifsson skrifar
Heiðrún Jónsdóttir er framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu.
Heiðrún Jónsdóttir er framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu. Aðsend

Samtök fjármálafyrirtækja, heildarsamtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu hér á landi, hafa fengið nýtt nafn og munu hér eftir bera heitið Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu.

Í tilkynningu segir að skammstöfun samtakanna verði áfram SFF og munu samtökin áfram bera heitið Finance Iceland á ensku. Nafnabreytingin var samþykkt einróma á félagsfundi SFF.

Haft er eftir Heiðrúnu Jónsdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu, að þeim þyki nýja nafnið endurspegla betur þann fjölbreytta hóp aðildarfélaga sem sé innan raða samtakanna, sem séu meðal annars sparisjóðir, verðbréfafyrirtæki, tryggingafélög, bankar, félög í lánastarfsemi, eignastýringu, greiðslumiðlun og bakvinnslu fyrir fjármálamarkaði. 

„Með þessu náum við einnig betur utan um þá þjónustu sem aðildarfélög okkar veita landsmönnum á hverjum degi.

Við töldum einnig fara vel á því að kynna nýtt nafn samtakanna þegar við höldum upp á 150 ára afmæli innlendrar löggjafar um fjármálaþjónustu hér á landi, en árið 1874 undirritaði Kristján IX. fyrstu tilskipunina um sparisjóðina í landinu, sama dag og hann staðfesti fyrstu stjórnarskrá Íslendinga. Á þessum tíma hafa fjármálastofnanir í landinu vaxið og dafnað með íslensku samfélagi og tekið ótrúlegum breytingum,“ segir Heiðrún.

Aðildarfélög SFF eru 25 en hjá þeim starfa um 3.300 starfsmenn. Samtökin urðu til í núverandi mynd árið 2006, en forverar samtakanna eiga sér mun lengri sögu. Sex sérfræðingar starfa á skrifstofu SFF.

Samhliða þessari breytingu hafa samtökin endurnýjað vörumerki og heimasíðu samtakanna sff.is þar sem finna má ýmsan fróðleik og gagnlegar upplýsingar sem tengjast fjármálaþjónustu.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×