Viðskipti innlent

Halda enn í vonina um loðnu­ver­tíð

Kristján Már Unnarsson skrifar
Guðmundur Óskarsson fiskifræðingur er sviðsstjóri uppsjávarsviðs hjá Hafrannsóknastofnun.
Guðmundur Óskarsson fiskifræðingur er sviðsstjóri uppsjávarsviðs hjá Hafrannsóknastofnun. Steingrímur Dúi Másson

Fiskifræðingar Hafrannsóknastofnunar eru ekki búnir að gefa upp vonina um að nægilega stórar loðnutorfur gætu fundist þennan veturinn til að heimila veiðar. Þannig er fiskiskipinu Heimaey VE enn haldið í viðbragðsstöðu í Vestmannaeyjum til að sigla út til loðnumælinga berist sterkar vísbendingar.

„Það koma einhverjar loðnufréttir nærri daglega en engar sem við höfum metið vera af þeirri stærðargráðu að nauðsynlegt væri að senda Heimaey af stað til að kanna,“ segir fiskifræðingurinn Guðmundur Óskarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs hjá Hafrannsóknastofnun.

Fyrir helgi bárust fréttir frá togurum á Vestfjarðamiðum og kannaði áhöfnin á Örfirisey þá loðnu. Niðurstaðan var að þar væri að mestu leyti ungloðna á ferð og því ekki vesturganga hrygningarloðnu. Einnig hafa borist fregnir af loðnu undan Húnaflóa sem og undan Suðausturlandi. Vísindamenn Hafrannsóknastofnunar hafa til þessa ekki séð ástæðu til að bregðast við.

Heimaey VE-1, skip Ísfélagsins, er í viðbragðsstöðu í Vestmannaeyjum ef kallið kemur.Vilhelm Gunnarsson

„Við gerum ráð fyrir að Heimaey verði til taks allavega út þessa viku en munum endurmeta stöðuna undir lok vikunnar ef ekkert gerist þangað til,“ segir Guðmundur Óskarsson.

Það var einmitt á þessum sama tíma í fyrra sem loðnuvertíðin stóð sem hæst. Flotinn var þá að mokveiða loðnu í norðanverðum Faxaflóa og út af Reykjanesi. Hún var þá komin að hrygningu og þar með hrognafull og í sínu verðmætasta formi.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2 í beinni útsendingu frá Akranesi fyrir ári:


Tengdar fréttir

Í viðbragðsstöðu vegna frétta af loðnugöngum

Hafrannsóknastofnun hafa borist fréttir síðustu daga af loðnugöngum undan Suður- og Austurlandi en einnig út af Vestfjörðum og Húnaflóa. Fiskiskipið Heimaey VE er haft í viðbragðsstöðu í Vestmannaeyjum ef upplýsingar þykja benda til að stórar torfur séu á ferðinni.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×