Íslenski boltinn

Blikar veltu meira en milljarði eftir Evrópu­ævin­týrið

Sindri Sverrisson skrifar
Breiðablik spilaði Evrópuleiki fram í desember eftir að hafa tekið það tímamótaskref í íslenskum fótbolta að komast í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar.
Breiðablik spilaði Evrópuleiki fram í desember eftir að hafa tekið það tímamótaskref í íslenskum fótbolta að komast í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar. vísir/Hulda Margrét

Knattspyrnudeild Breiðabliks hefur birt ársreikning sinn eftir fyrsta ár íslensks liðs í riðlakeppni Sambandsdeildar karla, með tilheyrandi tekjuaukningu.

Rekstrartekjur deildarinnar fóru yfir milljarð króna og voru samtals tæplega 1.095 milljónir. Tekjur af mótum voru 640 milljónir eftir að hafa verið tæplega 260 milljónir árið 2022.

Þar munar mestu um það að Blikar fengu verðlaunafé frá UEFA fyrir að komast í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar (2.940.000 evrur eða um 440 milljónir króna). Þeir hefðu reyndar getað aukið það enn frekar með því að ná í sigur (500.000 evrur) eða jafntefli (166.000 evrur) í riðlakeppninni, en töpuðu öllum leikjum, oft naumlega.

Eins og fram kemur í ársskýrslu fylgir þátttöku í Evrópukeppni einnig mikill kostnaður en Breiðablik spilaði 16 leiki, keppti við lið frá níu þjóðlöndum og ferðaðist til sjö landa. Leikmenn flugu samtals 39.000 kílómetra og voru 28 nætur erlendis vegna leikjanna.

Gjöld vegna þátttöku í mótum jukust um 126 milljónir á milli ára, í 262 milljónir, og kostnaður við þjálfun, leikmenn og yfirstjórn jókst um 87 milljónir, í 612 milljónir. Þarna ættu bónusar til leikmanna og þjálfara vegna Evrópuævintýrisins að spila inn í.

Alls voru rekstrargjöld ársins, líkt og tekjurnar, yfir milljarður króna en þó naumlega.

Hagnaður ársins nam rúmum 105 milljónum króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×