Skoðun

Núna er þetta bara orðið á­gætt!

Kristinn Karl Brynjarsson skrifar

Það fór nú auðvitað svo, liggur við að maður segi samkvæmt venju, að þingflokkur Vinstri grænna, gat ekki staðið við sátt sem ríkisstjórnin og þar með ráðherrar Vinstri grænna, höfðu náð í útlendingamálum. Hvort að þingflokkurinn og grasrót flokksins hafi komist í tilfinningalegt uppnám við það að sjá sig þurrkast út af þingi samkvæmt skoðanakönnunum, skal ósagt látið.

Hins vegar má líta á það sem trúnaðarbrest innan ríkisstjórnarsamstarfsins, ætli þingflokkur Vinstri grænna, eða minnsta kosti hluti hans, að hlaupa frá áðurnefndri sátt í útlendingamálunum. Formaður þingflokks Vinstri grænna, sagði það hátt og skýrt í fyrstu umræðu um útlendingafrumvarp dómsmálaráðherra, að flokkurinn styddi ekki frumvarpið, nema gengið yrði að kröfum þingflokks Vinstri grænna um breytingar á frumvarpinu. Slíkt er auðvitað með öllu ólíðandi, jafnvel þó þingmeirihluti sé fyrir frumvarpinu óbreyttu í þinginu. Enda væri flokkurinn, með andstöðu sinni við frumvarpið, að gefa það út að hann styddi ekki stefnu ríkisstjórnar sem hann sjálfur er aðili að í útlendingamálum. Flokkurinn væri því einn og óstuddur að stimpla sig út úr þessu ríkisstjórnarsamstarfi.

Þó fyrr hefði verið, gætu einhverjir sagt. Enda þorri þjóðarinnar búinn að fá upp í kok og nánast farinn að kyngja ælunni út af alls kyns tafaleikjum og skemmdarverkum, ráðherra og þingmanna Vinstri grænna, sem tafið hafa nær alla uppbygginu á innviðum og atvinnulífi og þar með stuðlað að verri lífskjörum Íslendinga, en þau þyrftu annars að vera.

Það vill nú bara þannig til, að þingflokksformaður, sagði það fullum fetum, að ef einn þingmaður Sjálfstæðisflokksins styddi vantrausttillögu á Svandísi Svavarsdóttur, sem reyndar aldrei var borin upp af kunnum ástæðum, þá þýddi það stjórnarslit. Skipti þar engu hvort tillagan yrði samþykkt eða ekki. Hann er því með öðrum orðum að boða stjórnarslit, nema gengið verði enn aftur að kröfum Vinstri grænna vegna útlendingafrumvarpsins.

Verði honum það að góðu að berjast við Pírata um þessi 10-15% atkvæða sem þessir no borders flokkar gætu mögulega átt vís.

Það má alls ekki gerast að enn einn ganginn að þorri þjóðarinnar verði beygður undir no borders-stefnu Vinstri grænna eða aðra skaðlega sérvisku þess flokks. Það er fyrir lifandis löngu komið nóg af slíku rugli.

Höfundur er formaður Verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokksins.




Skoðun

Sjá meira


×