Erlent

Biden og Trump sópuðu að sér kjör­mönnum en Haley tók Ver­mont

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Haley hefur nú lagt Trump í Vermont og Washington D.C. en hún hét því að halda áfram í forvalinu að minnsta kosti fram yfir Ofur-þriðjudag.
Haley hefur nú lagt Trump í Vermont og Washington D.C. en hún hét því að halda áfram í forvalinu að minnsta kosti fram yfir Ofur-þriðjudag.

Joe Biden og Donald Trump komu, sáu og sigruðu í forvali Demókrataflokksins og Repúblikanaflokksins á svokölluðum „Ofur-þriðjudegi“ í gær. 

Báðir tryggðu sér kjörmenn Kaliforníu, Virginíu, Norður-Karólínu, Maine, Massachusetts, Oklahoma, Tennessee, Texas, Arkansas, Alabama, Colorado og Minnesota. Biden sigraði einnig í forvali Demókrata í Iowa og Vermont en tapaði í Bandaríska Samoa fyrir Jason Palmer, lítið þekktum frambjóðanda sem er aðeins á kjörseðli í sextán ríkjum.

Það sem kom hins vegar ef til vill á óvart er að Trump laut í lægra haldi fyrir Nikki Haley í Vermont.

Enn sem komið er hefur hvorki Biden né Trump tryggt sér útnefningu flokks síns fyrir forestakosningarnar í nóvember en gera má ráð fyrir að það gerist á næstu tveimur vikum.

Báðir skutu á hinn í yfirlýsingum og ræðum í gær og Biden sagði Trump meðal annars knúinn af hefndarþorsta. Þá væri hann staðráðinn í að eyðileggja lýðræðið.

„Eftir úrslit kvöldsins standa Bandaríkjamann frammi fyrir augljósum valkostum: Ætlum við að halda áfram að horfa fram á við eða ætlum við að leyfa Donald Trump að draga okkur afturábak í glundroðann, sundrungina og myrkrið sem einkenndu embættistíð hans?“ sagði Biden.

Trump fagnaði árangri sínum og sagði annað eins aldrei hafa sést. Skaut hann að innflytjendum og sagði borgir landsins að sökkva í glæpafen innflytjenda.

Biden hefur tryggt sér um það bil 1.600 kjörmenn en þarf 1.968 til að tryggja sér útnefninguna. Hann gæti náði því marki 19. mars, þegar forval fer fram í Flórída, Illinois, Kansas og Ohio.

Trump hefur tryggt sér yfir þúsund kjörmenn en þarf 1.215. Hann á sömuleiðis möguleika á að klára málið 19. mars, þegar forval Repúblikana fer fram í sömu fjóru fyrrnefndu ríkjum auk Arizona.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×