Erlent

Hóp­nauðgun á ferða­manni á Ind­landi vekur at­hygli og reiði

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Nauðganir og kynferðisofbeldi á Indlandi komast nú oftar í fréttirnar en áður en tugþúsundir árása eru tilkynntar á ári hverju.
Nauðganir og kynferðisofbeldi á Indlandi komast nú oftar í fréttirnar en áður en tugþúsundir árása eru tilkynntar á ári hverju.

Hópnauðgun sem átti sér stað í Dumki í Jharkhand-ríki á Indlandi hefur vakið mikla athygli og reiði en fjórir hafa verið handteknir í tengslum við árásina og þriggja er leitað.

Fórnarlamb árásarinnar var 28 ára kona með ríkisfang í Brasilíu og á Spáni, sem var á mótorhjólaferðalagi með eiginmanni sínum. Þau höfðu þegar farið um nokkur ríki í Asíu þegar þau komu til Indlands fyrir nokkrum mánuðum.

Svo virðist sem þau hafi greint frá ferðalögum sínum á Instagram, þar sem þau eru með um 234 þúsund fylgjendur. Í myndskeiðum sem þau birtu um helgina, en hafa nú verið fjarlægð, greindu þau frá árásinni.

Konan sagði sjö menn hafa ráðist á sig og nauðgað sér; svo virðist sem nauðgunin hafi verið markmið árásarinnar þar sem þeir tóku ekki mikið af verðmætum á brott með sér. Þá beittu þeir konuna og mann hennar ofbeldi og hótuðu að drepa þau.

„Munnurinn minn er ónýtur,“ sagði maðurinn í öðru myndskeiði. „En konan mín er verri. Þeir börðu mig nokkrum sinnum með hjálminum, með grjóti í höfuðið. Guði sé lof að hún var í jakkanum; það dró aðeins úr höggunum.“

Að sögn lögregluyfirvalda tókst parinu að vekja athygli lögreglumanna á vakt, sem flutti þau á heilbrigðisstofnun. Samkvæmt sendiráði Brasilíu á Indlandi varð parið fyrir alvarlegri árás. Búið var að hafa samband við sendiráð Spánar, þar sem parið framvísaði spænskum vegabréfum til að komast inn í landið.

Spænska sendiráðið tísti í gær að fólk þyrfti að standa saman í því að binda enda á kynbundið ofbeldi.

Samkvæmt umfjöllun Reuters hafa konur stigið fram um helgina og lýst kynferðisáreitni og -ofbeldi á ferðalögum um Indland. Umræða um kynbundið ofbeldi jókst til muna í landinu í kjölfar atviks árið 2012, þegar hópur manna nauðgaði konu að nafni Jyoti Singh um borð í strætisvagni.

Singh lést af sárum sínum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×