Innlent

Rann­saka hvort konu hafi verið nauðgað í leigu­bíl

Lovísa Arnardóttir skrifar
Ævar Pálmi Pálmason, aðstoðaryfirlögregluþjónn, staðfestir að gróft kynferðisbrot sé til rannsóknar hjá miðlægri deild lögreglunnar. 
Ævar Pálmi Pálmason, aðstoðaryfirlögregluþjónn, staðfestir að gróft kynferðisbrot sé til rannsóknar hjá miðlægri deild lögreglunnar.  Vísir/Rúnar

Miðlæg rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er með til rannsóknar gróft kynferðisbrot gegn konu. Tveir karlmenn hafa réttarstöðu sakbornings. Annar mannanna starfar sem leigubílstjóri.

Eitt af því sem er til rannsóknar hjá lögreglunni hvort að brotið hafi átt sér stað í leigubílnum. Það staðfestir Ævar Pálmi Pálmason, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá miðlægri deild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Fyrst var greint frá málinu á vef RÚV í dag.

„Þetta er viðkvæmt mál,“ segir Ævar Pálmi í samtali við fréttastofu. Hann segir rannsókn málsins miða vel og að nokkur fjöldi hafi verið yfirheyrður vegna málsins.

Hann segir mennina af erlendu bergi brotnu en vill ekkert gefa frekar upp um uppruna þeirra. Fram kemur í frétt RÚV að annar maðurinn, sem starfi sem leigubílstjóri, hafi verið handtekinn við störf í leigubílaröðinni á Keflavíkurflugvelli. Þeir hafi báðir verið færðir til skýrslutöku og sleppt að því loknu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×