Viðskipti erlent

Ó­vænt kreppa í Japan og Þýska­land tekur þriðja sætið

Samúel Karl Ólason og Gunnar Reynir Valþórsson skrifa
Hgafræðingar áttu ekki von á samdrætti í Japan.
Hgafræðingar áttu ekki von á samdrætti í Japan. AP/Kyodo News

Óvæntur samdráttur mældist á japanska hagkerfinu en verg landsframleiðsla dróst þar saman um 0,4 prósent á síðasta fjórðungi síðasta árs. Þar áður var 3,3 prósenta samdráttur og er nú tæknilega séð kreppa í Japan.

Þetta kemur nokkuð á óvart að sögn breska ríkisútvarpsins en sérfræðingar höfðu búist við hagvexti á fjórða ársfjórðungi en ekki samdrætti. Þó er um bráðabirgðatölur að ræða en þegar samdráttur mælist tvo fjórðunga í röð er yfirleitt talað um að samdráttarskeið sé hafið.

Í október í fyrra gaf alþjóða gjaldeyrissjóðurinn út spá sem gerði ráð fyrir að í ár muni Þýskaland taka fram úr Japan sem þriðja stærsta efnahagsveldi heims og hefur það nú raungerst, samkvæmt frétt Reuters.

Hagfræðingar í Japan óttast frekari samdrátt á þessum ársfjórðungi vegna dræmrar eftirspurnar í Kína, lítillar neyslu og framleiðslutafa hjá Toyota.

Í frétt Japan Times eru þó haft eftir öðrum hagfræðingum að gögn landsins um verga landsframleiðslu séu ekki áreiðanleg, þar sem þær gangi reglulega breytingum. Annað mat á gögnunum verðu birt í næsta mánuði og þá þykir mögulegt að í ljós komi að ekki hafi orðið samdráttur í lok síðasta árs.

Kreppa ríkir einnig í Bretlandi þar sem samdráttur mældist tvo ársfjórðunga í röð. Á síðasta ársfjórðungi síðasta árs mældist samdrátturinn 0,3 prósent en hann var 0,1 prósent á þriðja ársfjórðungi. Reuters segir hagvöxt hafa verið lítinn í Bretlandi undanfarin tvö ár.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×