Handbolti

Öruggur sigur Frakka í fyrsta leik mótsins

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Nikola Karabatic gerir atlögu að sínum fjórða Evrópumeistaratitli. Hann hélt áfram að bæta eigið met yfir flesta leiki og flest mörk á mótinu. Talan stendur nú í 72 mörkum í 280 leikjum.
Nikola Karabatic gerir atlögu að sínum fjórða Evrópumeistaratitli. Hann hélt áfram að bæta eigið met yfir flesta leiki og flest mörk á mótinu. Talan stendur nú í 72 mörkum í 280 leikjum. Lars Baron/Getty Images

Evrópumótið í handbolta hófst formlega í dag. Frakkland spilaði fyrsta leik og vann þar öruggan 39-29 sigur á Norður-Makedóníu. 

Metfjöldi áhorfenda var mættur á Merkur Spiel-Arena í Düsseldorf til að líta opnunarleikina eigin augum. Merkur Spiel-Arena er jafnan 54 þúsund manna fótboltavöllur þar sem Ísak Bergmann Jóhannesson og félagar hans í Fortuna Düsseldorf spila heimaleiki sína í þýsku B-deildinni.

Eins og við var að búast áttu Frakkar, þrefaldir Evrópumeistarar og ríkjandi bronsverðlaunahafar EM, ekki í miklum vandræðum með andstæðinga sína frá N-Makedóníu í kvöld. 

Makedónarnir settu fyrsta markið en eftir að Hugo Descat braut ísinn fyrir Frakkland áttu þeir lítinn séns. Descat fór fremstur í flokki Frakka og skoraði sjö mörk úr jafnmörgum skotum. 

Miklir yfirburðir Frakka gáfu þeim tækifæri til að hvíla leikmenn og gefa fleirum færi á að sanna sig. Þegar leiknum lauk höfðu allir leikmenn Frakklands komið við sögu, að undanskildum einum. 

Síðari leikur kvöldsins í A-riðli milli Þýskalands og Sviss hefst klukkan 19:45. Íslenska landsliðið spilar svo sinn fyrsta leik næsta föstudag gegn Serbíu klukkan 17:00. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×