Erlent

Banda­ríkja­menn og Bretar skjóta niður dróna og flaugar Húta

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Samkvæmt Bandaríkjaher er um að ræða 26. árás Húta á skotmörk á Rauða hafi frá því í nóvember.
Samkvæmt Bandaríkjaher er um að ræða 26. árás Húta á skotmörk á Rauða hafi frá því í nóvember. AP/Bandaríski sjóherinn

Yfirvöld í Bandaríkjunum og Bretlandi hafa staðfest að herir þeirra hafi gripið til varna í einni umfangsmestu árás Húta á skotmörk á Rauða hafi. Ekkert hefur heyrst um slys á fólki né tjón á skipum í tengslum við árásina.

Samkvæmt Associated Press létu uppreisnarmenn Húta, sem njóta stuðnings Íran, til skarar skríða þrátt fyrir fyrirhugaða atkvæðagreiðslu í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í dag, þar sem árásir Húta verða mögulega fordæmdar.

Hútar hafa sagt árásunum ætlað að þrýsta á um að Ísrael láti af árásum sínum á Gasa en skotmörk þeirra hafa oft lítil eða engin tengsl við Ísrael. Árásirnar hafa hins vegar stofnað birgðaflutningum um hafsvæðið í hættu og aukið líkurnar á hefndarárásum Bandaríkjamanna á Jemen.

Þessar síðustu árásir áttu sér stað skammt frá hafnarborgunum Hodeida og Mokha í Jemen og lýstu skipverjar í nágrenninu því að hafa séð dróna og eldflaugar á lofti. Þá barst hvatning frá herskipum á svæðinu til annarra skipa um að sigla á sem mestum hraða.

Samkvæmt Bandaríkjamönnum var um að ræða átján dróna og nokkrar eldflaugar, sem var grandað af vopnum USS Eisenhower, USS Gravely, USS Laboon, USS Mason og HMS Diamond.

Hútar, sem hafa haft höfuðborg Jemen á sínu valdi frá 2014, hafa ekki gengist við árásinni en Bandaríkjamenn segja hana þá 26. sem uppreisnarhópurinn gerir á skip á Rauða hafi frá því í nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×