Erlent

Sex­tíu talin látin eftir að bátur sökk í Mið­jarðar­hafi

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Talið er að meira en tvö þúsund manns hafi drukknað við slíka fólksflutninga á árinu.
Talið er að meira en tvö þúsund manns hafi drukknað við slíka fólksflutninga á árinu. EPA

Óttast er að fleiri en sextíu hafi drukknað eftir að bátur sökk undan ströndum Líbíu. Forsvarsmenn Alþjóðafólksflutningastofnunarinnar IOM segir að þungar öldur hafi skollið á bátinn með fyrrgreindum afleiðingum.

Björgungarliðum tókst að bjarga 25 manns en talið er að níutíu hafi verið um borð, þar á meðal börn. Líbía er einn helsti brottfararstaður flóttafólks á leið þeirra til Evrópu og Alþjóðafólksflutningastofnunin telur að yfir 2200 manns hafi drukknað í Miðjarðarhafinu á árinu.

Samkvæmt IOM voru flest fórnarlambanna í þessu hræðilega slysi frá Nígeríu, Gambíu og öðrum Afríkulöndum. Jafnframt segja forsvarsmenn IOM að þau 25 sem bjargað hafi verið flutt til Líbíu og væri verið að hlúa að þeim.

Áfangastaður þeirra sem þreyta hættulegu ferðina á slíkum bátum yfir Miðjarðarhafið er yfirleitt Ítalía og þaðan gera þau sér leið til annarra Evrópuríkja. Sumir þeirra eru að flýja ofbeldi eða kúgun en aðrir í leit að vinnu og betri tækifærum.

Samkvæmt Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hafa 153 þúsund hælisleitendur komið til stranda Ítalíu frá Túnis og Líbíu á árinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×