Handbolti

Þór­ey Anna með bestu skotnýtinguna á HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þórey Anna Ásgeirsdóttir fór afar vel með færin sín á heimsmeistaramótinu í handbolta.
Þórey Anna Ásgeirsdóttir fór afar vel með færin sín á heimsmeistaramótinu í handbolta. Vísir/Diego

Íslenska landsliðskonan Þórey Anna Ásgeirsdóttir nýtti færin sín einstaklega vel á heimsmeistaramótinu í handbolta.

Íslensku stelpurnar tryggðu sér 25. sætið og Forsetabikarinn með sigri á Kongó í gærkvöldi.

Þórey Anna er efst á lista í tölfræði mótsins yfir þá leikmenn sem hafa nýtt skotin sín best til þessa en aðeins á eftir að spila undanúrslitin og leiki um sæti.

Þórey Anna nýtti 17 af 19 skotum sínum á mótinu sem gerir 89,4 prósent skotnýtingu.

Hún er tæpu prósenti á undan hinni slóvensku Natasju Ljepoja sem er með 88,8 prósent skotnýtingu.

Það munar auðvitað mikið um leikinn á móti Grænlandi þar sem Þórey setti íslenskt markamet og nýtti tíu af tíu skotum sínum.

Þórey er einnig með bestu skotnýtingu úr horni á mótinu en hún nýtti 11 af 12 skotum sínum úr hægra horninu sem gerir 91,6 prósent nýtingu.

Díana Dögg Magnúsdóttir er sá leikmaður sem hefur nýtt sín skotin sín best úr gegnumbrotum en hún skoraði 12 mörk úr 12 skotum í gegnumbrotum sínum á mótinu.

Þórey Anna og Díana Dögg hafa lokið keppni á HM og enda því með þessa frábæru skotnýtingu.

ihf.info



Fleiri fréttir

Sjá meira


×