Handbolti

Svíar í undan­úr­slit með stæl

Smári Jökull Jónsson skrifar
Jamina Roberts fer framhjá Julia Behnke og Lisa Antl í leiknum í dag.
Jamina Roberts fer framhjá Julia Behnke og Lisa Antl í leiknum í dag. Vísir/EPA

Svíþjóð tryggði sér í dag sæti í undanúrslitum heimsmeistaramótsins í handknattleik með öruggum sigri á Þjóðverjum í viðureign þjóðanna í 8-liða úrslitum. Svíar mæta Frökkum í undanúrslitum.

Svíar tryggðu sér sæti í 8-liða úrslitum með því að lenda í efsta sæti síns milliriðils með tíu stig en Þjóðverjar voru jafnir Dönum að stigum í sínum riðli þar sem bæði lið enduðu með átta stig.

Varnarleikur Svía í leiknum í dag var stórkostlegur. Þjóðverjar náðu ekki að skora mark fyrr en eftir rúmlega tíu mínútna leik en voru komnir með fjögur mörk eftir tuttugu mínútur. Þá var staðan 12-4 fyrir Svía. Staðan í hálfleik var 16-6 og sigur Svía svo gott sem í höfn.

Þjóðverjar bitu reyndar frá sér í upphafi síðari hálfleiks. Þýska liðið skoraði tvö fyrstu mörk hálfleiksins og minnkaði muninn í 22-16 þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum. Þá var liðið búið að skora fjórum mörkum meira en það gerði í öllum fyrri hálfleiknum.

Þetta var hins vegar of lítið og of seint. Munurinn fór mest niður í fjögur mörk en Svíar sigldu sigrinum nokkuð þægilega í höfn. Lokatölur 27-20 og Svíar mæta hinu geysisterka franska liði í undanúrslitum.

Linn Blohm, Nathalie Hagman, Olivia Mellegård og Jamina Roberts skoruðu allar fimm mörk fyrir Svía en markvörðurinn Johanna Bundsen var valinn maður leiksins enda lokaði hún markinu á köflum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×