Erlent

Fujimori laus úr fangelsi

Atli Ísleifsson skrifar
Alberto Fujibmori yfirgaf fangelsið með andlitsgrímu og í fylgd tveggja barna sinna – Kenji og Keiko Fujimori.
Alberto Fujibmori yfirgaf fangelsið með andlitsgrímu og í fylgd tveggja barna sinna – Kenji og Keiko Fujimori. AP

Alberto Fujimori, fyrrverandi forseta Perú, hefur verið sleppt eftir að hafa afplánað rúmlega fimmtán ár í fangelsi.

Mörg hundruð stuðningsmanna forsetans fyrrverandi hópuðust í kringum bílinn þegar hann yfirgaf Barbadillo-fangelsið í höfuðborginni Líma í gærkvöldi.

Hinum 85 ára Fujimori var sleppt eftir að stjórnlagadómstóll landsins staðfesti sex ára gamla náðun forseta landsins.

Fujimori var á sínum tíma dæmdur í 25 ára fangelsi fyrir spillingar- og mannréttindabrot á þeim tíma er hann gegndi embætti forseta. Hann var kjörinn forseti árið 1990 og gegndi embættinu til 2000.

Forsetinn fyrrverandi, sem er mjög umdeildur í Perú, yfirgaf fangelsið með andlitsgrímu og í fylgd tveggja barna sinna – Kenji og Keiko Fujimori sem beið nauman ósigur í síðustu forsetakosningum.

Í frétt BBC segir að stuðningsmenn Alberto Fujimori líti svo á að hann hafi í valdatíð sinni bjargað landinu frá hryðjuverkum og efnahagshruni, en andstæðingar hans líta svo á að hann hafi verið brotið niður lýðræðislegar stofnanir landsins í þeim tilgangi að tryggja eigin völd.

Þegar Fujimori var dæmdur í 25 ára fangelsi, þá sjötugur að aldri, gerðu flestir Perúmenn ráð fyrir að hann myndi verja því sem hann ætti eftir ólifað í fangelsi. Í desember 2017 var hann hins vegar fluttur úr fangelsinu og á sjúkrahús vegna vanheilsu sinnar.


Tengdar fréttir

Sam­þykkja að Fujimori skuli sleppt úr fangelsi

Stjórnlagadómstóll Perú hefur úrskurðað að forsetanum fyrrverandi, Alberto Fujimori, skuli sleppt úr fangelsi. Hann hefur setið í fangelsi frá árinu 2007 eftir að hafa verið dæmdur í 25 ára fangelsi eftir að hafa verið sakfelldur fyrir glæpi gegn mannkyni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×