Erlent

Fyrr­verandi for­seta neitað að fara úr landi

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Petro Porosjenkó fyrrverandi Úkraínuforseta var neitað að fara úr landi. 
Petro Porosjenkó fyrrverandi Úkraínuforseta var neitað að fara úr landi.  Vísir/AFP

Landamæraverðir í Úkraínu neituðu fyrrum forseta landsins Petro Porosjenkó um að fara úr landi í gær vegna þess að hann ætlaði sér að fara á fund Viktors Orbáns Ungverjalandsforseta. Þetta segir SBU, öryggisþjónusta Úkraínu.

Porosjenkó var forseti Úkraínu frá 2014 til 2019 og hafði skipulagt fundi með valdamiklu fólki í Evrópu en þurfti að aflýsa þeim vegna þess að honum var ekki hleypt úr landi.

Saka Kreml um aðild

Öryggisþjónusta Úkraína segir Ungverjalandsforseta reglulega viðra andúkraínsk viðhorf og sakaði Kreml um að hafa stillt fundinum upp sem þætti í „upplýsinga- og sálrænum hernaði gegn Úkraínu.“

Zoltan Kovács, talsmaður ungversku ríkisstjórnarinnar, birti í kjölfarið færslu á samfélagsmiðilinn X, áður Twitter, þar sem hann sagði Ungverjaland ekki hafa neinn áhuga á „innanríkis stjórnmáladeilum Selenskí forseta.“

„Slíkar fréttir og slíkar pólitískar hreinsanir er enn annað sem bendir til þess að Úkraína sé ekki tilbúin að ganga í Evrópusambandið,“ bætti hann við.

Áður neitað við landamærin

Porosjenkó hefur áður verið neitað að yfirgefa landið, meðal annars í maí síðastliðnum þegar hann hugðist fara til Litháen. Eftir að hann fór úr embætti hefur hann sætt rannsóknum fyrir föðurlandssvik og spillingu sem hann heldur fram að hafi verið skipulagðar af arftaka hans og pólitíska erkifjanda Selenskí, núverandi forseta Úkraínu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×