Fótbolti

Sjáðu mörkin á Kópavogsvelli

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leikmenn Maccabi Tel Aviv fagna marki Erans Zahavi. Í bakgrunni sést fáni Palestínu.
Leikmenn Maccabi Tel Aviv fagna marki Erans Zahavi. Í bakgrunni sést fáni Palestínu. vísir/anton

Breiðablik laut í lægra haldi fyrir Maccabi Tel Aviv, 1-2, þegar liðin áttust við í Sambandsdeild Evrópu á Kópavogsvelli í dag.

Dan Biton og Eran Zahavi skoruðu mörk Ísraelanna en fögnuður þess fyrrnefnda vakti mikla athygli.

Eftir að hafa komið Maccabi Tel Aviv yfir á 35. mínútu náði Biton í ísraelska fánann og fagnaði með hann, Blikum til lítillar ánægju. Hann fékk gult spjald fyrir athæfið.

Gísli Eyjólfsson jafnaði fyrir Breiðablik með laglegu marki á 61. mínútu. En Zahavi sá til þess að Maccabi Tel Aviv fór með öll stigin af Kópavogsvelli þegar hann skoraði annað mark liðsins á 82. mínútu. Blikar luku leik manni færri því Gísli fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt í uppbótartíma.

Mörkin úr leiknum má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.

Klippa: Breiðablik 1-2 Maccabi Tel Aviv

Mikill hiti var á Kópavogsvelli í dag en stuðningsmenn Ísraels og Palestínu mótmæltu fyrir utan hann.

Maccabi Tel Aviv er á toppi B-riðils Sambandsdeildarinnar með tólf stig en Breiðablik á botninum án stiga. Síðasti leikur liðsins í keppninni er gegn Zorya Luhansk 14. desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×