Skoðun

Út­skúfunar­sin­fónían

Nökkvi Dan Elliðason skrifar

Við lifum í heimi sem stjórnast sífellt meira á stafrænum leikvangi. Á þessum áður óþekkta leikvangi hefur forvitnilegt fyrirbæri verið í aðalhlutverki – bergmálshellar.

Þessir stafrænu og veraldlegu bergmálshellar mynda liðsheild skoðanasystkina. Í hellunum syngja skoðanasystkini söngva samþykkis og réttlætis. Þeir einir fá aðgöngumiða í bergmálshelli sem eru tilbúnir til að afsala sér sjálfstæðum skoðunum. Engum einstaklingi er hleypt inn í bergmálshelli nema hann syngi sömu falsettu og bergmálshellirinn dæmir hinn eina sanna tón. Þeir sem aðra tóna syngja eru fordæmdir og samstundis vísað á brott.

Uppgangur popúlisma á 21. öldinni hefur lagt til hljómsveitarstjóra í hvern bergmálshelli. Hljómsveitarstjórarnir skipuleggja hver sína útskúfunarsinfóníu. Auðvitað í þágu „almúgans“. Grunnstefið eru orðin „við“ og „þau“ sem ýtir ósjálfrátt undir sambandsrof við „þau“ sem þora að hafa sjálfstæða skoðun. Það er þó ekki nóg að syngja sjálfur hina réttu falsettu. Að auki þarf að vera tilbúinn til að styðja algera fordæmingu á öðrum tónum. Vogi sér einhver að nota annan tón skal honum vísað út, og hann jaðarsettur. Fari svo ólíklega að einhver geri athugasemd við það er honum að sjálfsögðu einnig vísað út.

Þegar útilokun og einhæfni í skoðunum verður dyggð, eitrar það brunn gagnrýnnar hugsunar. Upplýsingar um rétta og ranga hegðun og skoðun blómstra í bergmálshellum og hylja okkur í myrkri fáfræðinnar, þar sem speki fjölbreyttra radda er óheyrður.

Í þessum dularfulla dansi þátttöku og útilokunar stöndum við frammi fyrir vali. Við getum kosið að taka þátt í þessum ljótu útskúfunarsinfóníum eða ákveðið að syngja okkar eigin tón. Það er aðeins með því að brjóta í sundur veggi bergmálshellana sem við getum raunverulega fundið svörin sem við leitum af. Því innan ringulreiðarinnar sem fylgir ólíkum skoðunum gætum við fundið samhljóminn og uppljómunina sem við leitum í örvæntingu eftir.

Höfundur er stærðfræðingur.




Skoðun

Sjá meira


×