Erlent

Segir orð­ræðu og stefnu Trump endur­óma ris nas­ismans

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Pritzker sagðist ekki hafa of miklar áhyggjur af niðurstöðum skoðanakannana; kjósendur myndu gera upp hug sinn þegar valkostirnir lægju ljósir fyrir eftir landsþing flokkanna.
Pritzker sagðist ekki hafa of miklar áhyggjur af niðurstöðum skoðanakannana; kjósendur myndu gera upp hug sinn þegar valkostirnir lægju ljósir fyrir eftir landsþing flokkanna. AP/Paul Beaty

„Orðræðan sem notuð er af Trump og sumum MAGA-öfgahyggjumönnum er orðræða sem var notuð upp úr 1930 í Þýskalandi og ég hef verulegar áhyggjur af stefnu landsins ef stefna á borð við þá sem Donald Trump talar fyrir verður ofan á.“

Þetta sagði JB Pritzker, ríkisstjóri Illinois, í viðtali á MSNBC um helgina. Pritzker, sem er gyðingur og Demókrati, segir orðræðu Trump um innflytjendur, fyrirætlanir hans ef hann kemst aftur til valda og lýsingar á pólitískum óvinum sem „meindýrum“ enduróma ris nasismans upp úr 1930.

„Upp úr 1930 í Þýskalandi fóru þeir að kalla þá sem þeir vildu ekki að hefðu völd, þá sem þeir vildu aðgreina og aðskilja, „innflytjendur“... jafnvel fólk sem hafði verið í Þýskalandi margar kynslóðir. Þetta er byrjunin á því að aðgreina fólk og að lokum... afmennska og myrða fólk,“ sagði Pritzker.

Pritzker sagðist ekki átta sig á því að hverju Trump stefndi; það sem hann gæti sagt væri að orðræða hans hræddi hann og aðra sem þekktu sögu Evrópu. Hann hefði verulegar áhyggjur af því hversu upptekinn Trump væri af hefnd og hvað það þýddi fyrir hópa sem styðja hann ekki í forsetakosningunum á næsta ári.

„Ég endurtek það hvert sem ég fer; Donald Trump er hættulegur lýðræðinu. Hann er hættulegur ákveðnum minnihlutahópum í Bandaríkjunum. Og ég held að við sem höfum tækifæri til þess að varpa ljósi á það verðum að gera það,“ sagði Pritzker.

Andrew Bates, einn talsmanna Hvíta hússins, tjáði sig einnig um ummæli Trump í síðustu viku og sagði sagði það að nota orð á borð við „meindýr“ um þá sem gagnrýndu stjórnvöld endurómaði einræðisherra á borð við Hitler og Mussolini.

„Að nota hugtök á borð við það um gagnrýnisraddir væri óhugsandi fyrir landsfeður okkar en óhugnanlega kunnuglegt fyrir bandaríska hermenn sem klæddust herklæðum landsins síns upp úr 1940,“ sagði Bates.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×