Innlent

Starfs­hópur skipaður til að finna lausnir á hús­næði fyrir Grind­víkinga

Hólmfríður Gísladóttir og Margrét Björk Jónsdóttir skrifa
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, er formaður starfshóps innviðaráðherra.
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, er formaður starfshóps innviðaráðherra. Vísir/Egill

Innviðaráðherra hefur skipað starfshóp sem hefur það hlutverk að greina og kynna lausnir fyrir húsnæði fyrir Grindvíkinga, með áherslu á uppbyggingu nýrra húsnæðiseininga, vegna afleiðinga náttúruhamfara við Grindavík.

Frá þessu er greint á vef Stjórnarráðsins.

Skipunartími starfshópsins er frá 17. nóvember og skal hópurinn skila til ráðherra greinargerð og tillögum, eftir atvikum kostnaðarmetnum, eins fljótt og auðið er en þó í síðasta lagi fyrir lok janúar 2024.

„Hugur okkar er hjá þeim sem neyðst hafa til að yfirgefa heimili sín í Grindavík. Það er mikilvægt að við höfum hraðar hendur til að leysa húsnæðismál Grindvíkinga og draga úr þeirri óvissu sem nú ríkir,“ er haft eftir Sigurðurði Inga Jóhannssyni, innviðaráðherra.

Starfshópurinn á að:

  • Kortleggja möguleika á uppbyggingu nýrra húsnæðiseininga og annarra nýskapandi lausna sem að framleiðsluaðilar hafa þekkingu á.
  • Skilgreina kröfur til húsnæðis, þ.e. húsnæði skal vera af viðunandi gæðum, mæta þörfum íbúa varðandi aðstöðu og stærð, staðsetning skal uppfylla samfélagslegar, öryggis- og heilsukröfur um aðgengi að samgöngum, þjónustu og atvinnu.
  • Greina mögulegar staðsetningar og lóðir fyrir uppbyggingu slíks húsnæðis. Greiningin skal ná til höfuðborgarsvæðisins, Reykjaness og nærliggjandi sveitarfélaga. Önnur sveitarfélög verði skoðuð eftir þörfum.
  • Meta kostnað, innkaupaferli og annað sem tengist slíkri uppbyggingu, m.a. skipulagslega þætti og lagaumgjörð.

Og hann skipa:

  • Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, formaður,
  • Valdís Ösp Árnadóttir, sérfræðingur í innviðaráðuneytinu, verkefnisstjóri,
  • Einar Þorsteinsson, formaður borgarráðs Reykjavíkurborgar,
  • Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkurbæjar,
  • Guðmundur Axel Hansen, sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu,
  • Hermann Jónasson, forstjóri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar,
  • Hólmfríður Bjarnadóttir, skrifstofustjóri í innviðaráðuneytinu,
  • Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs Samtaka iðnaðarins,
  • Jón Kjartan Ágústsson, svæðisskipulagsstjóri höfuðborgarsvæðisins, hjá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu,
  • Ólafur Árnason, forstjóri Skipulagsstofnunar,
  • Óskar Jósefsson, settur forstjóri Framkvæmdasýslunnar – Ríkiseigna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×