Erlent

Heita því að berjast gegn hatri og hefja rann­sókn á skemmdar­verkum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Stjörnurnar hafa verið að birtast á húsum í París og víðar síðustu daga.
Stjörnurnar hafa verið að birtast á húsum í París og víðar síðustu daga. AP/Michel Euler

Yfirvöld í Frakklandi hafa hafið rannsókn á Davíðsstjörnum sem hafa verið að birtast á byggingum í París síðustu daga. Talið er að um hatursherferð gegn gyðingum sé að ræða, sem tengist átökum Ísraela og Hamas á Gasa.

Forsætisráðherran Elisabeth Borne hefur fordæmt skemmdarverkin og sagt að seku muni fá makleg málagjöld.

Stjörnurnar hafa verið málaðar á fjölda bygginga í París og í úthverfunum Vanves, Fontenay-aux-Roses og Aubervilliers. Í bænum Saint-Ouen voru einnig málaðr stjörnur og textinn „Palestína mun standa þetta af sér“.

Frá 7. október, þegar Hamas-liðar gerðu árásir á samfélög Ísraelsmanna hinum megin við landamörkin frá Gasa, hafa yfirvöld skráð 857 atvik sem flokka má undir gyðingaandúð. Þetta eru álíka mörg tilvik og höfðu verið skráð allt árið.

Yfirvöld hafa send skýr skilaboð um að hatur í garð gyðinga sé algjörlega óásættanlegt og verði ekki liðið. „Við munum vernda ykkur, algjörlega,“ sagði innanríkisráðherrann Gérald Darmanin í gær. „Dag og nótt.“

Bandalag námsmanna sem aðhyllast gyðingatrú segir Davíðsstjörnurnar á byggingum borgarinnar vera tilvísun til þess hvernig gyðingar voru merktir í valdatíð nasismans í Þýskalandi.

Samuel Lejoyeux, forseti bandalagsins, segir ljóst að þeir sem standa á bakvið stjörnurnar vilji vekja ótta.

Borne sagði á þinginu í gær að ástandið í Mið-Austurlöndum, þá væntanlega átökin sem nú standa yfir, réttlættu ekki gyðingaandúð. Stjórnvöld myndu berjast þreytulaust gegn fordómum.

Faðir Borne lifði dvöl í Auschwitz en tók eigið líf þegar hún var ellefu ára.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×