Sport

Gripu til varna eftir gagn­rýni á um­fjöllun sína um Taylor Swift og Kelce

Aron Guðmundsson skrifar
Samband Travis Kelce og Taylor Swift hefur vakið töluverða athygli
Samband Travis Kelce og Taylor Swift hefur vakið töluverða athygli Vísir/Getty

NFL deildin í Banda­ríkjunum hefur gripið til varna sökum gagn­rýni þess efnis að deildin sé að gera of mikið úr sam­bandi Tra­vis Kelce, leik­manns Kansas City Chiefs, við popp­stjörnuna Taylor Swift.

Segja má að Swift sé stærsta popp­stjarna í heiminum um þessar mundir og hefur sam­band hennar við Kelce vakið mjög mikla at­hygli. Swift hefur undan­farið verið að mæta á leiki með Kansas City Chiefs og er NFL deildin að nýta sér það til hins ítrasta.

Deildin greip til varna í gær eftir að bera fór á gagn­rýni þess efnis að hún væri að ein­blína of mikið á sam­band Kelce við Swift í tengslum við um­fjöllun leikja. Gagn­rýnin kom frá í­þrótta­á­huga­fólki sem og Kelce sjálfum.

Á­horfið á leiki Kansas City Chiefs hefur aukist tölu­vert síðan sögu­sagnir um sam­band Kelce og Swift fóru á kreik Swift var sjálf á leik Chiefs gegn síðustu helgi gegn New York Jets og horfðu yfir 27 milljónir ein­stak­linga á út­sendinguna frá leiknum. Er það mesta á­horf á leik á sunnu­degi síðan að Super Bowl fór fram.

Fyrir leikinn voru sýndar aug­lýsingar um heimildar­myndina Taylor Swift: The Eras Tour þar sem popp­stjörnunni er fylgt á tón­leika­ferða­lagi sínu. Á meðan að leik stóð birtist hún yfir sau­tján sinnum í mynd í stúkunni og þá hefur NFL deildin notað hana ó­spart í því efni sem birt er á sam­fé­lags­miðla­reikningum deildarinnar.

Í yfir­lýsingu frá NFL deildinni, þar sem að hún ver nálgun sína segir:

„Fréttirnar af Taylor Swift og Tra­vis Kelce er stór menningar­leg stund í popp­sögunni. Við á­kváðum að nýta okkur það þar sem þarna mætast skemmtana­bransinn og í­þróttirnar. Við höfum séð ó­trú­legan fjölda góðra við­bragða við þessu.“

Þunga­miðjan sé enn efni bein­tengt leikjum deildarinnar.

Í hlað­varps­þætti með bróður sínum á dögunum sagði Kelce að NFL deildin væri að gera að­eins of mikið úr sam­bandi hans við Swift.

„Klár­lega að gera mikið úr þessu, sér í lagi minni stöðu en ég held líka að deildinni þyki þetta bara skemmti­legt og vilji gera góða hluti úr þessu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×