Erlent

Stakk tvo kennara sína og særði annan al­var­lega

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Lögreglan í Ósló rannsakar árásina. Myndin tengist fréttinni ekki beint. 
Lögreglan í Ósló rannsakar árásina. Myndin tengist fréttinni ekki beint.  VÍSIR/EPA

Nemandi í Háskólanum í Osló er grunaður um að hafa stungið tvo kennara sína í húsakynnum skólans síðdegis í dag. Annar kennaranna hefur verið fluttur alvarlega særður á sjúkrahús.

NRK greinir frá málinu. Segir þar að maðurinn sé grunaður um tilraun til manndráps.

Árásin átti sér stað í lyfjafræðideild háskólans seinni partinn í dag og eru bæði fórnarlömb árásarinnar kennarar nemandans grunaða. Annar er alvarlega særður en hinn særðist lítillega. Samkvæmt upplýsingum lögreglu hlutu þeir báðir stungusár í árásinni en tveir hnífar fundust á vettvangi.

Tor Gulbrandsen hjá lögreglunni í Osló segir í samtali við NRK að ljóst sé að nemandinn hafi þekkt kennarana tvo. Hann hafi verið yfirbugaður af fólki sem varð vitni að árásinni inni í skólanum.

„Hnífi var beitt. Maðurinn var rólegur þegar lögreglu bar að garði,“ er haft eftir Gulbrandsen.

Rektor háskólans segir árásina sorglega og alvarlega. Nemendum og starfsfólki skólans hafi þegar verið boðin áfallahjálp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×