Sport

Fyrsti at­vinnu­maður Ís­lands í fris­bígolfi: „Þetta er draumurinn“

Aron Guðmundsson skrifar
Blær Örn Ásgeirsson, fyrsti og eini atvinnumaður Íslands í frisbígolfi til þessa
Blær Örn Ásgeirsson, fyrsti og eini atvinnumaður Íslands í frisbígolfi til þessa Vísir/Einar

Blær Örn Ás­geirs­son fetar stíg sem enginn Ís­lendingur hefur áður fetað. Hann er okkar fyrsti at­vinnu­maður í fris­bígolfi.

„Þessi fyrstu skref hafa verið mjög skemmti­leg, ég hef lært mjög mikið af þessu. Þetta hófst í rauninni allt í fyrra þegar að ég fór til Banda­ríkjanna að keppa á Disc Golf Pro Tour og keppti þar allar helgar,“ segir Blær Örn í sam­tali við Vísi.

„Það var mjög góð reynsla sem ég hef byggt á núna í sumar þar sem ég hef verið að keppa á Evrópu­túrnum og ferðast um alla Evrópu.“

Á nóg inni

Blær hefur undan­farnar vikur verið í fríi frá keppni hér heima á Ís­landi en hefur í dag leik á Aluta­gu­se Open mótinu í Eist­landi sem er hluti af Evrópu­túrnum.

„Á þessum fyrstu mótum á túrnum byrjaði ég frekar hægt en það gekk alltaf á­gæt­lega. Fyrsta mark­miðið hjá mér fyrir þessi mót hefur alltaf verið að ná í verð­launa­fé en svo langar mig alltaf að vera þarna uppi á meðal tíu efstu kepp­enda. Mig langar að ná þeim sætum.

Á undan­förnum mótum hef ég verið rétt fyrir utan topp tíu, sem er allt í lagi þar sem ég hef verið að spila cirka á getu, en mér líður eins og ég eigi nóg inni og mun því reyna sína hvað í mér býr á næstunni.“

Áhuginn kviknaði á Flateyri

Blær Örn er braut­ryðjandi á sínu sviði hvað Ís­lendinga varðar, spennandi til­hugsun fyrir hann en á sama tíma þætti honum það gott að geta leitað til sam­landa upp á ráð og fé­lags­skap að gera.

„Þetta er mjög spennandi en á sama tíma væri gaman að vera með fleiri Ís­lendinga í þessu, bara til að mynda upp á að ferðast með. Ég hef svo­lítið verið að leita til annarra kepp­enda frá Norður­löndunum og þar á ég vini sem ég hef kynnst á undan­förnum árum.“

En hvaðan kemur þessi á­hugi Blæs á fris­bígolfi?

„Lengi vel var ég að æfa fót­bolta en svo prófaði ég fris­bígolf á Flat­eyri í fyrsta sinn og fann um leið hvað mér þótti það skemmti­legt.

Ég sagði for­eldrum mínum frá þessari reynslu og eitt leiddi af öðru. Ég fékk fris­bígolf­sett í af­mælis­gjöf, viku eftir það keppti ég á Ís­lands­mótinu og eftir það átti þessi í­þrótt hug minn allan. Ég hætti í fót­boltanum og sneri mér al­farið að þessu.“

Hausinn rétt skrúfaður á

Hvaða eigin­leikum þarf maður að búa yfir sem at­vinnu­maður í þessari í­þrótt?

„Það mikil­vægasta er að vera með góðan haus. Þú ert ekki með neitt lið í kringum þig, ert alltaf al­einn á mótum og því skiptir hausinn og and­legt jafn­vægi svona miklu máli. Þú þarft að búa yfir mikilli ein­beitingu en á sama tíma ekki að of­hugsa hlutina eða stressa þig of mikið. Svo snýst þetta, eins og í öllum öðrum í­þróttum um æfingar.

Ég reyni bara að spila eins mikið og ég get dags dag­lega og er meðal annars með körfu í garðinum heima þar sem að ég get æft púttin sem eru mjög mikil­vægur partur af leiknum. Svo þegar að maður er úti á túrnum þá fer tími manns mikið í að ferðast á milli landa, æfa fyrir mót og keppa á þeim. Þetta er ferli sem endur­tekur sig aftur og aftur.“

Þeir bestu græða tá á fingri

En hvernig er um­hverfið í fris­bígolf heiminum, er hægt að hafa það gott á því að vera at­vinnu­maður í í­þróttinni?

„Ef við skoðum þá bestu í heiminum, þá eru þeir að þéna mjög vel og skrifa undir samninga sem færir þeim yfir eina milljón dollara á ári í sinn hlut bara frá styrktar­aðilum,“ svarar Blær en það jafngildir yfir 130 milljónum íslenskra króna. 

„Þá á eftir að taka inn í myndina verð­launa­fé sem þeir vinna sér inn á mótum. Hvað mig varðar þá er ég ekki alveg á þeim stað núna. Ég hef mitt lifi­brauð af þessu en þyrfti klár­lega á fleiri styrktar­aðilum að halda til að geta hafa þetta að­eins þægi­legra.

Tekjurnar fara að miklu leiti eftir því hversu vel þú ert að spila. Ef þú spilar vel allar helgar þá eru tekjurnar góðar, á sama skapi ef þú spilar illa þá eru tekjurnar í takt við það.“

Draumurinn rættist en þetta er bara byrjunin

Eftir komandi mót í Eist­landi heldur Blær Örn á Evrópu­mótið sjálft.

„Þar verða allir bestu spilarar Evrópu mættir. Ég kem síðan heim eftir það mót í fjóra daga og held síðan út á heims­meistara­mótið sem fer fram í Banda­ríkjunum að þessu sinni. Ég verð þar í tæpar tvær vikur áður en ég sný aftur heim og fjórum dögum eftir það hefst Ís­lands­mótið. Dag­skráin er því alveg þétt­pökkuð en það er bara skemmti­legt.“

Því þetta er það sem Blær Örn stefndi alltaf að á sínum fris­bígolf ferli, að verða at­vinnu­maður.

„Þetta er draumurinn sem maður er að upp­lifa, alveg geggjuð til­finning. Allar æfingarnar sem maður er búinn að leggja í þetta, það er gaman að sjá þær skila sér núna en mér finnst ég enn eiga nóg inni. Ég er ekki kominn á þann stað, sem ég vil vera á, enn þá. Þetta er því góð byrjun.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×