Erlent

Heims­frægur barna­níðingur í lífs­hættu eftir stungu­á­rás

Árni Sæberg skrifar
Watkins á sviði með Lostprophets, áður en komst upp um viðurstyggilega glæpi hans.
Watkins á sviði með Lostprophets, áður en komst upp um viðurstyggilega glæpi hans. Andrew Benge/Getty

Ian Watkins, fyrrverandi söngvari velsku rokkhljómsveitarinnar Lostprophets, berst nú fyrir lífi sínu á sjúkrahúsi eftir að þrír samfangar hans réðust á hann vopnaðir eggvopni í klefa hans í fangelsi. Hann afplánar 29 ára langan fangelsisdóm fyrir gróft barnaníð.

Heimildir breska dægurmiðilsins Mirror herma að Watkins hafi fundist í klefa sínum illa farinn eftir að hafa verið barinn og stunginn af samföngum sínum. Hann sé í bráðri lífshættu á sjúkrahúsi og megi teljast heppinn lifi hann af. 

Samfangar Watkins eru sagðir hafa náð að króa hann af inni í klefa hans vegna þess að færri fangaverðir starfa í HMP Wakefield fangelsinu, þar sem harðsvíruðustu fangar Bretlands afplána, nú yfir sumartímann. Watkins hafi um árabil verið sem gangandi skotmark annarra fanga vegna eðlis glæpa hans.

Fleiri miðlar í Bretlandi hafa fengið það staðfest hjá lögreglu og fangelsismálayfirvöldum að mál sem kom upp í fangelsinu í gær sé til rannsóknar. Ekki sé hægt að greina frekar frá því að svo stöddu.

Fékk aðdáendur til að brjóta gegn eigin börnum

Hann var árið 2013 dæmdur til 29 ára langrar fangelsisvistar eftir að hafa gengist við því að fremja gróf kynferðisbrot gegn börnum. Þá mun hann afplána sex ár til viðbótar á reynslulausn lifi hann af.

Meðal annars fékk hann aðdáendur sína, tvær konur, til þess að misnota sín eigin börn til þess að geðjast honum. SMS-skilaboð sem Watkins sendi annarri konunni voru lesin upp í réttarhöldunum en þar sagði Watkins: „Ef þú tilheyrir mér, þá gerir barnið þitt það líka.“

Sönnunargögn, myndir og myndbönd sem sýna börn beitt grófu kynferðislegu ofbeldi fundust í tölvum og símum Watkins. Eitt af myndböndunum sýnir eins árs gamalt barn beitt grófu ofbeldi en Watkins bar við minnisleysi í þeim ákærulið.

Hljómsveit Watkins, Lostprophets, var stofnuð árið 1997 og gaf út fimm breiðskífur, þar af eina sem komst á topp vinsældarlistans í Bretlandi. Hljómsveitin seldi milljónir platna og fyllti iðullega stóra tónleikastaði.


Tengdar fréttir

Fjölskylda Watkins er miður sín og reið

„Ég myndi glaður eyða klukkutíma í hrista hann til og hrinda honum til og frá í fangaklefanum,“ segir Jon Davies, stjúpfaðir Ian Watkins.

Quarashi ferðaðist með barnaníðingnum Watkins

Hljómsveitin Quarashi fór í tónleikaferðalag með hljómsveitinni Lostprophets. Söngvari Lostprophets, Ian Watkins, játaði í dag að hafa framið fjölda kynferðisbrota gegn börnum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×